137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

fundir í viðskiptanefnd.

[15:39]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Orri Schram hefur gert heiðarlega grein fyrir sínum málum. Það er mjög skiljanlegt og eðlilegt að þessir hlutir komi upp eins og hann lýsti hér og ekkert við því að segja.

Það er hins vegar rétt sem hér kemur fram að það vekur athygli, miðað við allar þessar stóru yfirlýsingar um gagnsæi, um samráð, um alla þessa hluti, að vinnubrögðin eru þvert á þær yfirlýsingar. Það er algjörlega fráleitt að halda því fram að ekki hafi verið efni til að halda fund í síðustu viku. Ef einhvern tíma hefur verið þörf á að funda í viðskiptanefnd — og ætti nú frekar að fjölga tímunum en að leggja niður fundi — væri það nú.

Hér var upplýst af forsætisráðherra að helsti sérfræðingur Svía, sem við fengum til að fara í bankamálin, hefði hótað (Forseti hringir.) að hætta vegna óljósrar stefnu og vegna þess hve hægt var unnið. Ef við viljum gera hlut þingsins meiri, er það þá ekki þess virði að þingnefndir sem fjalla um þessi mál fari yfir það?