137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að ræða sérstaklega skýrslu hæstv. forsætisráðherra. Hún var frekar innihaldsrýr. Ég vildi gjarnan koma inn á það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði um nauðsyn þess að taka á fjárlagahallanum. Því er ég og minn flokkur algerlega sammála og ég vona að við getum átt gott samstarf við hæstv. fjármálaráðherra um það verkefni og þá með því að einbeita okkur að því að gera velferðarkerfið skilvirkara og líka að huga að öðrum leiðum en endilega skattahækkunum sem ekki er heldur niðurskurður.

Ég ætla þó að byrja á því að ræða um heimilin, stöðu þeirra og hvernig við leysum vandann. Við verðum að byrja á því að minnka atvinnuleysið. Það er stærsti vandi heimilanna og það er það sem við þurfum að einbeita okkur að. Það gerum við með því að nýta orkulindir þjóðarinnar í botn og þótt öllum líki það kannski ekki hjá Vinstri grænum eða öðrum þurfum við að byggja álver sem fyrst til að skapa störf. Hafi einhverjir aðrir önnur störf er það allt í lagi. Þá komum við með þau líka. Ekki veitir af. Komið bara með sem flest störf. Við þurfum að skapa betra umhverfi fyrirtækja. Eins og ég segi þurfum við álver við Helguvík, gagnaver og hvalveiðar, nýsköpun og menntun. Öllu þessu þurfum við að taka með opnum huga.

Síðan þurfum við að bæta umhverfi fyrirtækjanna og virkja atvinnulausa sem reyndar hefur verið gert með góðum árangri með hlutaatvinnuleysi sem er mjög merkileg tilraun.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ályktað um skuldavanda heimilanna, að það eigi að gefa öllum kost á því að lækka greiðslubyrðina um 50% í þau þrjú ár sem eru til umræðu þegar vandi heimilanna er sem mestur.

Síðan þurfum við að gera velferðina skilvirkari eins og ég gat um. Ég var í nefnd sem fjallaði um greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu. Þar er dæmi um það hvernig hægt er að gera kerfið miklu einfaldara og réttlátara, og um leið skilvirkara fyrir þjóðfélagið.

Við getum ekki talað um fjölskyldurnar án þess að ræða um lífeyrissjóðina. Þeir eru núna að skerða lífeyri og þótt þingmenn hafi valið sér besta lífeyrissjóð landsins til að ganga í fyrir stuttu verðum við að taka á vanda lífeyrissjóðanna. Þeir standa frammi fyrir þeim vanda, til viðbótar þessum, að eiga í deilum við bankakerfið um gjaldmiðilsreikninga. Það þarf að leysa það mál sem allra fyrst og setja í gegn.

Fyrir fyrirtækin, sem eru samofin stöðu heimilanna eins og hér kom fram, þurfum við að lækka stýrivexti. Það hefur margoft verið nefnt. Ég held að við þurfum að sannfæra Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðra um það að háir stýrivextir halda ekki þessum krónubréfum á Íslandi. Stíflan lekur og við verðum að horfast í augu við það og segja við okkur sjálf: Háir stýrivextir hafa ekki hjálpað til. Við skulum lækka þá, a.m.k. svo að við séum ekki með svo óskaplega háa raunvexti eins og eru í dag.

Við þurfum að aflétta gjaldeyrishöftum eins fljótt og mögulegt er. Til þess þarf að uppfylla ákveðnar forsendur eins og hér er nefnt. Þar þarf stjórnarandstaðan að vinna með ríkisstjórninni.

Varðandi atvinnulífið þurfum við að koma á gegnsæi hlutafélaga. Það er reyndar mál nr. 6 á dagskrá í dag, þingsályktunartillaga frá mér um að taka upp nýtt form hlutafélaga sem er gegnsætt eignarhald. Við þurfum helst að skipuleggja fjármálakerfið með lánardrottnum. Ef okkur tekst að ná þeim einstæða möguleika að semja við lánardrottna um endurskipulagningu njótum við strax betri vaxtakjara úti í heimi. Þetta er mjög mikilvægt þó að menn hafi ekki horft mikið á það.

Síðan þurfum við að breyta greiðslustöðvun og gjaldþrotaferli og taka upp svokallaða Lundúnaleið sem viðheldur verðmætum í gjaldþrota fyrirtækjum, þekkingu á stjórnun og þekkingu starfsmanna.

Ég tek undir með hv. þm. Þór Saari, mér líkar ekki hvernig kröftum Alþingis er dreift í þessari stöðu. Við erum í mjög alvarlegri stöðu og þá fara menn að tala um að sækja um aðild að Evrópusambandinu, eyða miklum dýrmætum tíma í það sem breytir engu til skamms tíma fyrir heimilin og fyrirtækin og gerir ekkert annað en að dreifa kröftum.

Ég legg til að hæstv. fjármálaráðherra og öll hæstv. ríkisstjórn leiti til stjórnarandstöðunnar um lausnir á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir og ég er alveg tilbúinn til að vinna með ríkisstjórninni að því að finna lausnir á vandanum.