137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:45]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. forsætisráðherra rakti áðan hafa horfur í efnahagsmálum aldrei verið jafndökkar og núna við endalok frjálshyggjunnar á Íslandi. Heilt bankakerfi hefur hrunið og gengi krónunnar fallið meira en fordæmi eru fyrir. Fjármagnsauður landsmanna hefur þurrkast út og gjaldþrot blasir nú við fjölda fyrirtækja og heimila.

Það sorglega við stöðuna í dag er að það hefði mátt koma í veg fyrir banka- og gjaldeyriskreppuna ef aðeins hefði verið vilji til að læra af mistökum annarra þjóða. Frá 1970–2007 lentu 42 lönd í nákvæmlega sömu aðstæðum og við erum í í dag. Í þessum aðstæðum lentu þau lönd eftir að hafa aukið frelsi í bankaviðskiptum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að kostnaður skattgreiðenda af fjármálakreppu nemi um 10% af vergri landsframleiðslu. Tilraun íslenskra stjórnvalda til að koma hér á óheftum markaðsbúskap mundi kosta skattgreiðendur um 146 milljarða kr. Það er sú upphæð sem ríkið mun innheimta á þessu ári í virðisaukaskatt og á að duga til að fjármagna útgjöld til félags- og tryggingamála auk menntamála að stórum hluta.

Frú forseti. Endurreisnin sem bíður nýrrar ríkisstjórnar er eitt umfangsmesta og mikilvægasta verkefni stjórnvalda frá því að grunnur var lagður að sjálfstæðu efnahagslífi hér á landi. Í skiptum fyrir lán á bankabók í New York hafa stjórnvöld skuldbundið sig til að fara eftir efnahagsstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem felur m.a. í sér hátt vaxtastig til að ná fram fjármálastöðugleika. Hátt vaxtastig hefur dýpkað fjármálakreppuna á Íslandi og tafið fyrir endurreisn bankakerfisins. Nýju bankarnir geta t.d. ekki birt efnahagsreikninga sína þar sem rekstur þeirra er ekki lífvænlegur á meðan vextir af innlánum hér á landi eru hærri en vextir á eignum þeirra erlendis. Lækki vextir ekki á næstunni verður ríkisstjórnin einfaldlega að afþakka efnahagsráðgjöf Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að forða þjóðinni frá gjaldþroti. Óþarfi er að bíða í mörg ár eftir aðild að Evrópusambandinu til að ná fram vaxtalækkun hér á landi, ríkisbankarnir geta einfaldlega tekið ákvörðun um að lækka vexti niður í 5% eða til samræmis við vaxtastig í öðrum löndum.

Á útrásartímabilinu jókst ójöfnuður meira hér á landi en annars staðar í Evrópu, m.a. vegna skattalækkana og rýrnunar skattleysismarka og vaxtabóta. Það voru því margir sem ekki nutu góðs af góðærinu og reyndu að bæta sér það upp með lántöku. Skuldsett heimili þurfa nú að taka á sig auknar byrðar í réttu hlutfalli við skuldastöðu þeirra. Hins vegar voru fyrstu aðgerðir stjórnvalda eftir bankahrunið þær að vernda fyrst og fremst hagsmuni fjármagnseigenda. Bankainnstæður voru tryggðar að fullu og eignir í peningamarkaðssjóðum ofmetnar. Þessar aðgerðir kostuðu skattgreiðendur mikið fé en urðu til þess að margir héldu ótrauðir áfram að eiga innstæður á bankareikningum. Átta mánuðum eftir hrunið eru engin áform uppi um að jafna betur skuldabyrðar fjármálakreppunnar þrátt fyrir að eftirspurn í hagkerfinu hafi hrunið vegna kjararýrnunar og aukinnar greiðslubyrði. Íslenskt samfélag virðist því enn fast í gildrum útrásarinnar sem birtast m.a. í skoðunum eins og að hver sé sinnar ógæfu smiður. Gremja og reiði fer því vaxandi meðal þeirra sem misst hafa vinnuna, eru gjaldþrota og að kikna undir skuldabyrðinni.

Frú forseti. Ríkisstjórnin verður að grípa til aðgerða sem tryggja efnahagslega og félagslega velferð til að afstýra upplausn í samfélaginu. Efnahagsstöðugleiki tryggir ekki endilega velferð því að honum er hægt að ná með bæði miklu og litlu atvinnuleysi.

Þegar einkabankarnir hrundu var Ísland í hópi 10 ríkustu þjóða heims og atvinnuþátttaka mest hér á landi samanborið við önnur OECD-lönd. Á Íslandi er því meira svigrúm til að jafna vinnu, tekjum og skuldum en í flestum öðrum löndum sem farið hafa (Forseti hringir.) í gegnum fjármálakreppu.