137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir mér og flestum á Íslandi blasir ástand efnahagsmála einhvern veginn svona við:

Atvinnulausir eru nú orðnir um 19.000 og stöðugt bætist í hópinn. Vanskil heimila og fyrirtækja aukast jafnt og þétt. Fleiri og fleiri fyrirtæki verða gjaldþrota. Gengi íslensku krónunnar veikist stöðugt. Ísland býr við gjaldeyrishöft, eitt fárra ríkja í heiminum. Raunstýrivextir Seðlabanka Íslands eru nú 8% en samt býr landið við verðhjöðnun. Bankar tapa 8–10 milljörðum kr. á mánuði vegna vaxtaójafnvægis sem m.a. er til komið vegna hárra stýrivaxta Seðlabankans. Greiðslur til þýskra innstæðueigenda í Edge-reikningum Kaupþings eru í uppnámi. Breytingar sem gerðar voru á lögum um fjármálafyrirtæki gera það að verkum að ekki er hægt að standa við gerða samninga við Þjóðverja. Stofnefnahagur bankanna er í uppnámi. Nefnd um hvernig leysa skuli vandamálin með gjaldeyrisjöfnuð bankanna hefur verið að störfum síðan í þarsíðustu ríkisstjórn. Ekkert gengur að leysa Icesave-deiluna. Landsbankinn er enn undir hryðjuverkalögum. Greiðslur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tefjast stöðugt.

Sænski bankasérfræðingurinn hótaði að segja starfi sínu lausu fyrir helgi vegna óánægju sinnar með það hversu hægt gengi að koma hlutum í verk. Skuldir ríkissjóðs virðist vera óþekkt stærð og ekki er vitað hvernig afborgunum og vaxtagreiðslum verður háttað í framtíðinni. Algjör óvissa ríkir um hvernig á að taka á ríkisfjármálum. Sjávarútvegurinn hefur verið settur í algjört uppnám með áætlunum um innköllun veiðiheimilda. Fólk er aftur byrjað að safnast saman á Austurvelli.

Annars virðist bara allt ganga þokkalega. (Utanrrh.: Eins og þegar þú varst efnahagsráðgjafi?) [Hlátur í þingsal.] Já, efnahagsráðgjafi þinn, Össur. Mundu það. (Forseti hringir.) Við erum að fara að ræða frumvarp um fjölbreytileika lífvera og meðferð úrgangs og embættismenn eru að fara í sumarfrí. Þegar þeir koma aftur úr fríi bíður þeirra það verkefni að hefja samninga við Evrópusambandið sem munu standa næstu 1–2 árin.

Virðulegi forseti. Þetta er hinn rauðgræni veruleiki.