137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um efnahagsmálin. Ég verð að segja að ég hlustaði mjög grannt eftir því sem stjórnarandstaðan hafði fram að færa vegna þess að ég vil gjarnan að við eigum góða samvinnu við stjórnarandstöðuna í þeim gríðarlegu verkefnum sem fram undan eru. En ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Það var helst að það örlaði á lausnum í tali hv. 7. þm. Reykv. n., Péturs H. Blöndals, en upp úr öllum öðrum stóð bara að hér væri ekkert gert, hér væru engar lausnir o.s.frv. (Gripið fram í: Við … gagnrýni …)

Ég get tekið undir það sem fram kom hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni að viðfangsefnið er að endurreisa trúverðugleikann fyrir utan það að koma efnahagslífinu í gang og aðstoða heimilin. Til þess að endurreisa trúverðugleikann verðum við umfram allt að eiga góða samvinnu við þá aðila sem þó eru að aðstoða okkur, eiga góða samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og standa við skuldbindingar okkar. Það er það sem við erum að gera. Þess vegna var mjög sérkennilegt hjá einum hv. þingmanni þegar hann talaði eins og við hefðum skuldbundið okkur til að fara að efnahagsstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við erum í samvinnu við sjóðinn og hann hlustar auðvitað á sjónarmið okkar og við á hans og svo komumst við að niðurstöðu í þeim áætlunum sem við vinnum eftir.

Ég tók líka eftir því að formaður Framsóknarflokksins talaði um að hann hefði enga trú á því að við mundum ná hér upp hagvextinum eins og ég talaði um í framsöguræðu minni. Ég hef fulla trúa á að við getum það. (EyH: Hvernig?) Við erum með margvíslegar aðgerðir í því skyni og ég hvet þingmenn Framsóknarflokksins til að lesa t.d. 100 daga áætlun þessarar ríkisstjórnar sem við höfum lagt fram þar (Gripið fram í.) sem í mörgum atriðum er farið inn á það hvernig við ætlum að fara í endurreisn á atvinnulífinu. Ég bið hv. þingmenn að vera ekki órólega, bið þá að lesa það sem við höfum hér fram að færa frekar en að tala um að ekki sé hægt að gera hlutina. Fólkið og þjóðin þarf síst á því að halda að það sé enginn vonarneisti um að hægt verði að koma atvinnulífinu í gang. (BJJ: Hvar eru þeir?)

Ég minni hv. þingmenn líka á þær 50 aðgerðir sem ríkisstjórnin fór í þegar hún var minnihlutastjórn og starfaði í 100 daga. Þar settum við í gang 6.000 störf sem er verið að vinna að og koma í framkvæmd. Þó að atvinnuleysið sé of hátt og sé um 16.000 manns núna eru þó 5.000 þeirra í hlutastörfum og ýmiss konar átaksverkefnum og þar munum við halda áfram. Stóru aðgerðirnar sem við erum að fara í að því er varðar efnahagsmálin — ég hef ekki tíma til að lesa það allt upp — sem er í þessari 100 daga áætlun okkar. Ég minni í því sambandi á að hverju einasta verkefni sem við ætluðum að hrinda í framkvæmd og fram kom í verkáætlun okkar í minnihlutastjórn var hrundið í framkvæmd. (Gripið fram í.) Það munum við einnig gera að því er varðar þessa 100 daga áætlun og ég bið þingmenn að fylgjast grannt með því.

Þar er t.d. grundvallaratriðið sá stöðugleikasáttmáli sem við viljum fara í með aðilum vinnumarkaðarins. Sú vinna er byrjuð og eftir smástund munum við, ég og formaður Vinstri grænna, hitta forustumenn aðila vinnumarkaðarins til að ræða hvernig við getum gengið í það risavaxna verkefni, m.a. til að aðstoða frekar heimilin og koma atvinnulífinu í gang. (Gripið fram í.)

Ég hef áhyggjur af því viðhorfi sem fram kom hjá formanni Sjálfstæðisflokksins þar sem hann talaði um að það væri alveg ómögulegt að breyta erlendum lánum í bönkunum í innlend lán á versta gengi. Ég bið menn að horfa á það hve brýnt er að taka á þeim óstöðugleika í gengismálum sem við búum við í bönkunum. Við erum ekki að tala um þvingaðar aðgerðir, við erum að vinna í aðgerðum í sátt við fólk. Nákvæmlega með hvaða hætti gengistryggðu lánunum verði breytt í krónur og hversu hratt það verður gert er ekki hægt að segja fyrir um á þessu stigi en að því verður unnið. Ég fullvissa hv. þingmenn um að það er mikilvægt, ekki síst fyrir einstaklingana og fyrirtækin, ekki síður en bankana, að taka á þessum gjaldeyrisójöfnuði sem er í bönkunum. (Gripið fram í.) Að því munum við vinna.

Margir tala um heimilin í landinu og tala eins og þessi ríkisstjórn sé ekkert að gera í þeim efnum og ekki að hugsa um heimilin en ég vil að lokum segja að við erum að því. Ég fullvissa hv. þingmenn um að á hverjum einasta degi förum við yfir stöðuna gagnvart heimilunum (Forseti hringir.) og metum á hvern hátt við getum komið frekar til móts við þau en við höfum gert. (Forseti hringir.) Við munum sjá í þessari viku niðurstöðu frá Seðlabankanum og við munum þá fara yfir það (Forseti hringir.) hvernig við getum gert betur í þeim efnum, eins og við munum gera líka að því er varðar bæði heimilin og atvinnulífið (Forseti hringir.) og að koma efnahagslífinu í gang á nýjan leik.