137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[17:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir að upplýsa um sinn skilning í þessu máli. Ég vona að hann sé réttur en ég tel a.m.k. mikilvægt að nefndin gangi úr skugga um það með hvaða hætti hugsunin er að þetta gerist. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að lagasetningarvaldið geti ekki farið úr þessum sölum og yfir í reglugerðarform úr ráðuneytum. Eins og ég segi, ef það er misskilningur hjá mér, þessi skilningur sem ég gerði grein fyrir áðan, er ágætt að eyða honum og koma honum út úr heiminum. Ég hef samt fulla ástæðu til að óttast að það sé pínulítið til í því sem ég var að segja og þess vegna mælist ég til að nefndin fjalli um þetta sérstaklega, fái úr því skorið með óyggjandi hætti og láti álit sitt í ljós á þessu álitaefni í nefndaráliti.