137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

hlutafélög með gegnsætt eignarhald og bann við lánveitingum og krosseignarhaldi.

5. mál
[18:19]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir jákvæð viðbrögð síðasta hv. ræðumanns. Varðandi vanmátt nefndasviðs er Alþingi með fjárveitingavaldið og Alþingi fjármagnar alla sérfræðingana í ráðuneytunum sem semja frumvörp alla daga, dag og nótt. Sérfræðiþekkinguna um framkvæmd laganna gæti nefndasvið að sjálfsögðu fengið úr ráðuneytunum þegar sú hefð verður komin á að nefndir þingsins semji öll frumvörp. Þá þyrfti væntanlega að styrkja nefndasviðið mjög verulega með fólki sem er vant því og kann að semja frumvörp til viðbótar við þá nefndarmenn sem þegar eru og hafa unnið ágætt starf. Við erum bara allt of fáliðuð fyrir svona stórt verkefni.

Fyrir sérfræðiþekkingu, t.d. varðandi samkeppnislög, er mikill munur hvort fenginn er sérfræðingur frá Samkeppniseftirliti til að aðstoða nefndina við að semja frumvörp eða hvort sérfræðingur hjá Samkeppniseftirliti semur frumvarpið sjálfur. Það er mikill munur á því. Ég hef oft sagt að embættismenn sníða vopn í hendurnar á sjálfum sér til að berja á borgurunum eða til hægðarauka. Skattalög eru með ólíkindum. Ég segi alltaf að 109. gr. skattalaga ætti að vera bönnuð börnum því að hún er svo hræðileg. Það er talað um sektir og refsingar, fangelsi og alls konar sem ég hugsa að þingmenn mundu aldrei setja sjálfvirkt í lög. Ég held að hægt sé að leysa þennan vanda með vanmátt nefndasviðs og sérfræðiþekkinguna mjög auðveldlega.