137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

hlutafélög með gegnsætt eignarhald og bann við lánveitingum og krosseignarhaldi.

5. mál
[18:36]
Horfa

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég lauk ekki alveg við ræðu mína áðan en ég vil þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, formanni hv. viðskiptanefndar, og sérstaklega hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, sem var með svo mikið lof að það var allt að því vandræðalegt fyrir mig að hlusta á það. (Gripið fram í: Farðu í andsvar.) Ég get það ekki því það yrði meðsvar.

Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið en geta þess að þegar Kaupþing og Exista voru upp á sitt besta áttu þau 20% hvort í öðru og það má meta hvorn hlut á að lágmarki 40 milljarða á þeim tíma. Ef þau hefðu hvort um sig keypt eigin bréf af hinu félaginu væru þau bréf verðlaus vegna þess að eigin hlutabréf eru verðlaus í höndum hlutafélags, það getur gefið endalaust út af eigin hlutabréfum. Þeir 40 milljarðar sem Kaupþing átti í Exista og þeir 40 milljarðar sem Exista átti í Kaupþingi voru í rauninni aldrei til. En lánveitendur voru að lána út á þetta og þetta var sýnt í efnahagsreikningi sem eign. Þetta er hættan við raðeignarhald og þetta veitti auk þess völd. Það veitti stjórn Kaupþings vald á einum af þremur stjórnarmönnum í Exista og það veitti stjórn Exista vald á þremur af átta stjórnarmönnum í Kaupþingi, að ég held.

Hvað gerðist, frú forseti? Upphaflegir hluthafar í Kaupþingi og Exista misstu þessi völd til stjórnanna. Þarna myndaðist fé án hirðis. Reyndar var féð ekki einu sinni til en hirðarnir urðu til og þeir fóru með geysimikil völd í þessum tveimur félögum. Þetta held ég að hafi verið aðalmeinið við gagnkvæmt eignarhald og verulegt mein. Ég ræddi á sínum tíma í hv. efnahags- og skattanefnd, sem ég var þá formaður fyrir, um gagnkvæmt eignarhald, það var 2006. Það skildi eiginlega enginn af þeim sem þar mættu, Félag fjárfesta, Kauphöllin, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn, og ég skildi heldur ekki fullkomlega hversu mikil og alvarleg áhrif þetta krosseignarhald hafði, hvað það gat valdið miklum skaða og hvernig það hvatti menn til að taka áhættu. Þetta eykur sem sagt eigið fé, þetta eykur völd en þetta eykur líka arð vegna þess að 20% af arðuinum hjá Kaupþingi fór yfir til Exista og bjó til hagnað þar sem var borgaður sem arður til Kaupþings og bjó til hagnað þar og svo fram og til baka ár eftir ár. Þannig spólaðist arðurinn fram og til baka og óx alltaf og óx en var í rauninni ekki til. Þetta villir mjög um fyrir öllu efnahagslífinu, svona krosseignarhald.

Það sem er til ráða er í þessari þingsályktunartillögu. Gert er ráð fyrir að skilgreind verði ný tegund af hlutafélögum sem heitir hlutafélög með gegnsætt eignarhald. Gegnsætt hlutafélag má ekki eiga í öðrum hlutafélögum nema þau séu gegnsæ. Það verður sem sagt að selja öll ógegnsæ hlutafélög. gegnsætt hlutafélag á að birta á netinu lista yfir öll félög sem það á í og öll félög sem eiga í því sem eru gegnsæ. Ef einhver eigandi að hlutafé í gegnsæju hlutafélagi er hlutafélag og er ekki gegnsætt þá fær það hvorki arð né atkvæðisrétt. Þetta er mjög alvarleg breyting og gerir það að verkum að ekki er hægt að setja þetta í almenn lög vegna þess að félögin mundu missa eignarrétt og rétt á arði ef þau væru ekki gegnsæ. Þetta gerir það að verkum að þetta þarf að vera sérform og sennilega þarf að kaupa þau félög út sem eiga í félaginu eins og þegar um er að ræða yfirtöku. Svo kemur veigamikið atriði. gegnsætt hlutafélag má ekki eiga hlutabréf í hlutafélagi sem á það beint eða óbeint. Það má ekki eiga í eigendum sínum alla keðjuna upp. Það má ekki lána verðmæti til aðila sem á það beint eða óbeint. Það má hvorki eiga í þeim né lána í þeim.

Vegna þessara ákvæða liggur eignarhaldið alveg fyrir frá toppi til táar hjá fyrirtækinu, allar dætur og allir eigendur. Slík félög ættu strax að njóta hylli almennra hluthafa því að vandinn hefur einmitt falist í þessu krosseignarhaldi og raðeignarhaldi sem komið hefur í ljós. Þeir sem lána til fyrirtækja ættu að öðlast traust á félögum af þessu tagi. Gert er ráð fyrir því í þingsályktunartillögunni að hlutverk endurskoðenda verði miklu stærra í þessu, að endurskoðendur beri virkilega ábyrgð á því að félagið láni ekki til eigenda sinna, ef þeir eru hlutafélög, og eigi heldur ekki í þeim. Þetta gildir ekki um einstaklinga sem eiga í félögum.

Frú forseti. Að lokum vil ég geta þess hvernig það mundi virka á bankana ef þeir yrðu gegnsæ hlutafélög. Þá mundi nefnilega enginn geta átt í banka sem þyrfti lán frá bankanum sem er mjög athyglisvert. Það þýðir að það eru bara einstaklingar sem mega taka lán hjá bankanum og eiga í honum samtímis, en ekkert hlutafélag má eiga í bankanum ef það tekur lán frá honum. Það útilokar fjöldamörg fyrirtæki í atvinnulífinu frá því að fjárfesta í banka og það er kannski ágætt því að þeir sem gætu fjárfest í banka væru þá aðilar sem ekki taka lán, t.d. lífeyrissjóðir, t.d. hlutafélög einstaklinga, sem stofnuð yrðu í þeim tilgangi að fjárfesta í banka og þyrftu ekki lán til þess heldur gætu notast við hlutafé hluthafa sinna. Ég held því að þessi þingsályktunartillaga gæti haft mjög góð áhrif á starfsemi bankanna, að það yrðu eingöngu einstaklingar sem ættu í bönkum og aðilar sem ekki þurfa lán frá bankanum, hlutafélög sem ekki þurfa lán frá þeim. Það er einmitt það sem menn hafa verið að glíma við alla tíð.

Ég hygg að þessi þingsályktunartillaga, ef nefndin semur um þetta frumvarp, gæti haft mjög jákvæð áhrif á starfsemi bankanna og starfsemi alls atvinnulífsins. Ég tel að einmitt nú sé hvað mikilvægast að koma með nýtt form á hlutafélögum sem njóta trausts bæði fjárfesta og lánveitenda. Ef svona frumvarp yrði samþykkt mundi eitthvert eitt fyrirtæki byrja að verða gegnsætt. Það mundi verða eitthvert lítið útgerðarfyrirtæki sem einstaklingar eiga, það er í eðli sínu gegnsætt. Það mundi byrja og allir mundu vilja fjárfesta í því af því að eignastrúktúrinn í því liggur fyrir og menn mundu líka vera tilbúnir til að lána því. Það þýddi að þeir sem ætluðu að kaupa í því, eitthvert hlutafélag, verður að vera gegnsætt áður en menn geta keypt í því því annars fær það hvorki atkvæðisrétt né arðsrétt. Þetta mundi smita út frá sér út í atvinnulífið að til þess að fá lán og til þess að njóta trausts fjárfesta þá þurfa hlutafélög að vera gegnsæi það er mjög einfalt.

Ég hygg að þetta mundi breiðast mjög hratt út um atvinnulífið og hugsanlega smita yfir til útlanda vegna þess að erlendis er þetta fyrirbæri mjög almennt líka. Enron-hneykslið í Bandaríkjunum var einmitt út af þessu og efnahagslíf Japans og Þýskalands er gegnsýrt af gegnkvæmu eignarhaldi, raðeignarhaldi, krosseignarhaldi. Það er t.d. talið að Deutsche Bank eigi stóran hluta í þýsku atvinnulífi, beint eða óbeint. Þetta eru mjög flóknar keðjur. Japanir eru fyrir löngu hættir að sjá í gegnum þetta, hvað þetta hefur gert. Það skyldi nú ekki vera, frú forseti, að uppgangur Japans og Þýskalands eftir stríð hafi verið vegna þess að menn bjuggu til peninga með þessum hætti. Vandræði Japana síðar meir eru vegna þess að féð er án hirðis, þ.e. fé sem enginn á vegna þess að stjórnir félaganna ráða öllu, og þá minnkar hvatinn til að sýna arðsemi. Það skyldi ekki vera að hinar dýpri ástæður þess að Þýskalandi og Japan vegnaði vel eftir stríð hafi verið þær að menn bjuggu til peninga og hnignun japansks efnahagslífs og hugsanlega að einhverju leyti þýsks líka sé vegna þess að hvatinn til arðsemi hafi minnkað og horfið.