137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[13:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína eins og að ég held flestra annarra þingmanna að í dag voru ummæli höfð eftir Mats Josefsson um íslenska bankakerfið og endurreisn þess sem eru allt öðruvísi en þær upplýsingar sem við þingmenn höfum fengið. Þetta er annar dagurinn í röð sem við þingmenn lesum í blöðunum yfirlýsingar frá Mats Josefsson. Í gær staðfesti forsætisráðherra það sem kom fram í blöðunum, að þessi sérfræðingur hótaði að hætta út af stefnuleysi og hægagangi ríkisstjórnarinnar. Þetta fréttum við þingmenn í gegnum fjölmiðla.

Í dag, virðulegi forseti, eru yfirlýsingar hafðar eftir honum í sænsku pressunni þar sem hann segir að hann telji að Íslendingar geri sér ekki grein fyrir því hversu dýrt það verður að endurreisa bankakerfið og nefnir þar að það muni kosta 85% af vergri landsframleiðslu sem eru allt aðrar tölur en nefndar hafa verið hér og annars staðar í þjóðfélaginu. Ég veit ekki hvort rétt er eftir þessum manni haft en það sem ég veit, virðulegi forseti, er að það er fyrir lifandis löngu kominn tími á það að við fundum í viðskiptanefnd um þessi mál. Ef eitthvað er forgangsmál er það endurreisn bankakerfisins og það er algerlega fráleitt að viðskiptanefnd þingsins hafi ekki enn sest yfir þetta mál. Ég held að það sé kominn tími til að við fáum að vita um stöðu mála en þurfum ekki að lesa það enn einn daginn í fjölmiðlum landsins.