137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[13:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þingmönnum og sérstaklega hv. þm. Birki Jóni Jónssyni sem segir að þetta fari að verða niðurlægjandi fyrir þingið. Formaður viðskiptanefndar kemur hér upp og virðist ekki hafa hugmynd um hvað Mats Josefsson er að tala um, ekki hugmynd um það, leggur eitthvað út af því en það hvarflar ekki að hv. þingmanni, formanni viðskiptanefndar, að halda fund um málið.

Virðulegi forseti. Hvaða mál eru það nákvæmlega sem eru brýnni fyrir viðskiptanefnd að fara í núna en endurreisn bankakerfisins? Hvaða mál eru það? Ef þetta mál er ekki brýnt, hvað eru brýn mál? Samt sem áður sá núverandi meiri hluti, sem talar um gagnsæi, opna stjórnarhætti og hvað það var, ástæðu til að fresta föstum nefndarfundi í síðustu viku. Og nú, virðulegi forseti, hefur hv. þm. Eygló Harðardóttir farið aðeins yfir dagskrána á morgun og með fullri virðingu fyrir þeim málum, telur einhver hér inni þau vera brýnni en þetta einstaka mál? Er það svo að þingmenn þessarar þjóðar vilji hafa þann hátt á að lesa upp á hvern dag upplýsingar í fjölmiðlum, úr erlendri pressu, sem eiga heima í þingsal eða réttara sagt að þingmenn séu upplýstir alla vega á nefndarfundum? Er einhver hér inni sem vill hafa þetta með þessum hætti? Í það minnsta einhverjir, þ.e. þeir sem stýra núverandi ríkisstjórn. Þetta er það sem menn tala um, Samfylkingin og Vinstri grænir, þegar þeir tala um opna stjórnarhætti. Þetta er gagnsæi í framkvæmd.