137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[13:51]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það hefur komið fram hér í þessari umræðu að tveir hv. þingmenn hafa beðið um fund í viðskiptanefnd. Annars vegar er það hv. þm. Eygló Harðardóttir og hins vegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Þau eru ekki í sama flokki en þau hafa bæði mjög málefnalegar ástæður til þess að biðja um fund í nefndinni. Ég tel að það séu eðlileg vinnubrögð í þinginu að verða við slíkum beiðnum hratt og örugglega. Beiðni þeirra er málefnaleg, það er ekkert hægt að deila um það.

Þjóðin er í kröggum. Það er verið að biðja um fund sem tengist endurreisn bankanna. Komið hafa fram nýjar upplýsingar sem hleypa illu blóði í það mál og menn spyrja sig hvað sé í gangi. Að sjálfsögðu á að verða við þessum beiðnum hið fyrsta.

Ég vil nefna það að sú er hér stendur bað um fund í heilbrigðisnefnd Alþingis vegna svínaflensunnar, hafði samband við formann heilbrigðisnefndar og bað um fund hið fyrsta til að ræða það mál. Það var orðið við þeirri beiðni. Það er búið að halda þann fund. Hann var áðan, mjög góður fundur. Svona á þingið að vinna. Það á að bregðast við óskum þingmanna hratt og örugglega. Ég vil skora á alla nefndarformenn Alþingis að taka þau vinnubrögð til eftirbreytni sem voru viðhöfð í heilbrigðisnefnd í dag og hafa oft verið viðhöfð hér. Ég vil skora á formennina að bregðast við óskum hv. þingmanna hratt og örugglega þegar málefnalegar óskir koma fram.

Það er málefnalegt og algjörlega eðlilegt að biðja um fund í viðskiptanefnd þegar fram koma misvísandi upplýsingar um eitt stærsta mál sem við stöndum frammi fyrir í dag, sem er endurreisn bankanna. Þetta hefur gengið of hægt, þetta hefur gengið of illa og við viljum vita af hverju. Við viljum svör. Ég ætla að biðja (Forseti hringir.) hæstv. forseta að beita sér í þessu máli ef nefndaformenn ætla ekki að verða við eðlilegum (Forseti hringir.) óskum um fundi í nefndum þingsins.