137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

endurreisn bankakerfisins -- fundur í viðskiptanefnd.

[14:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég verð að ítreka að ég tel að fyrrum þingmönnum Vinstri grænna virðist hafa verið skipt út, þeir eru umskiptingar, það er nýtt fólk sem allt í einu er mætt inn í þingið. (Gripið fram í.) Það var þetta fólk sem barðist harðast fyrir auknu samráði, meiri samvinnu og auknu gagnsæi innan þingsins og í íslensku samfélagi.

Nú þegar við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í viðskiptanefnd óskum eftir að ræða það mál sem ríkisstjórnin sjálf hefur sagt að sé eitt það brýnasta til að endurreisa íslenskt efnahagslíf, bankakerfið, segir formaður að hún ætli að skoða málið, hún ætli að reyna að koma á fundi. (ÁI: Var það ekki?) Ekkert talað um dagsetningar, ekkert var talað um tímasetningar. (ÁI: Rangt.) Þegar málið var tekið upp strax á fyrsta fundi viðskiptanefndar af fulltrúum stjórnarandstöðunnar fengum við engin svör um hvenær halda ætti þann fund. Fyrsta fasta fundi var frestað vegna þess að það voru engin mál sem hægt var að ræða, eins og það sé ekkert að gerast.

Síðan þurfa hv. þingmenn að lesa um það í blöðunum hvað er að gerast í sambandi við endurreisn íslenska bankakerfisins, nákvæmlega og það sem er að gerast innan viðskiptanefndar, nákvæmlega ekkert.

Á fundi okkar núna í hádeginu ítrekaði formaður viðskiptanefndar að það væri enginn tími til þess að fara í efnislega umfjöllun á þeim málum sem við fjölluðum um þá. Þrátt fyrir að ég hafi óskað eftir því (Gripið fram í.) að við mundum jafnvel funda aftur í kvöld eða að loknum þingfundi (Forseti hringir.) virtist sem stjórnarþingmenn hefðu enn ekki tíma til að sinna störfum sínum innan viðskiptanefndar. (Forseti hringir.) Það er mjög sorglegt. Ég óska þess (Forseti hringir.) að forseti taki á þessu máli strax.

(Forseti (ÁRJ): Ég vil biðja þingmenn um að virða ræðutíma.)