137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[14:06]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum. Það er 33. mál þingsins á þingskjali 33.

Í frumvarpinu er lagt til að við lögin verði bætt ákvæði sem heimilar þeim skilanefndum sem starfa á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II við lögin, sbr. lög nr. 44/2009, að greiða skuldir eða efna aðrar skuldbindingar fjármálafyrirtækis ef skilanefnd telur víst að nægilegt fé sé til að greiða að fullu kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.

Rökin fyrir því að nauðsynlegt sé að gera þessa breytingu eru að ráðuneytinu hafa borist ábendingar frá skilanefndunum um að þær telji að túlka eigi breytingu þá sem gerð var með lögum nr. 44/2009 þannig að skilanefndunum sé ekki heimilt að framkvæma greiðslur á skuldum eða skuldbindingum viðkomandi fyrirtækja fyrr en eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn og haldinn hefur verið fyrsti kröfuhafafundur eftir lok frestsins. Það er nokkur ágreiningur um þessa túlkun skilanefndanna. Hvað sem því líður liggur fyrir kröfulýsingarfrestur getur verið allt að sex mánuðir og svo líður einhver tími þar til fundur með kröfuhöfum er haldinn. Það er ljóst að það gengur ekki að skilanefndir geti ekki innt af hendi neinar greiðslur í marga mánuði og hafa strax komið upp tilvik þar sem reynir á þetta.

Þannig telja skilanefndir sér ekki kleift að greiða fyrrverandi starfsmönnum laun í uppsagnarfresti eða greiða aðrar forgangskröfur.

Það er því nauðsynlegt að gera breytingar á lögunum sem allra fyrst sem gera það að verkum að skilanefndir geti greitt skuldir eða skuldbindingar fjármálafyrirtækja í þeim tilvikum þar sem talið er að nægilegt fé sé til að greiða að fullu jafnstæðar kröfur.

Fram hafa komið þau sjónarmið um að frumvarpið veiti skilanefndunum of víðtækar heimildir til útgreiðslu og er sjálfsagt að kannað verði í viðskiptanefnd hvort unnt sé að þrengja gildissvið frumvarpsins hvað þetta varðar.

Ég legg til, frú forseti, að máli þessu verði að umræðunni lokinni vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.