137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[14:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hæstv. ráðherra hefur ekki lesið Fréttablaðið í dag. Það er verið að afhenda honum umrætt viðtal, honum er því í lófa lagið að fara yfir þetta á eftir. Þetta er mjög stutt viðtal og í umræðunni hefur hvað eftir annað komið fram um hvað er að ræða. Mats Josefsson telur að kostnaðurinn verði um 85% af vergri landsframleiðslu. Ef hæstv. ráðherra getur ekki lesið þetta núna á meðan ég svara andsvari hans hefur hann tækifæri til að fara yfir það á eftir.

Mér fannst það nú ekki vera mjög upplýsandi það sem forsætisráðherra vísaði í, einhverjar dýpri ástæður hljóta að búa þarna að baki aðrar en stefnuleysi og hægagangur. Ég veit að enginn maður er betur að sér en hæstv. ráðherra hvað þessa hluti varðar. Hæstv. ráðherra verður að vega það og meta hvað hann telur rétt að upplýsa þingið og þjóðina um. En maður mundi nú ætla að í ljósi allrar umræðunnar um gegnsæið og opna stjórnarhætti yrði farið vel yfir þau mál. Hæstv. ráðherra hefur tækifæri til þess að gera það á eftir.

Ég vil ítreka spurningu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar. Hann spurði hvort, í kjölfar þessarar uppákomu með sænska sérfræðinginn, hvort það hefði verið einn liður í því að fá hann aftur til starfa að einhverjar breytingar yrðu á samræmingarnefnd varðandi endurreisn bankanna eða hvort einhverjir aðrir þættir lægju þar fyrir sem gerðu það að verkum að hann var fáanlegur að koma að verkefninu aftur.

En, virðulegi forseti. Það væri ágætt að fá (Forseti hringir.) viðhorf ráðherrans hvað þetta varðar.