137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[14:33]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er í raun miður að þurfa að grípa strax inn í lögin um fjármálafyrirtæki vegna slita gömlu bankanna á nýjan leik einungis mánuði eftir að þau voru afgreidd héðan út og við héldum að þau mundu duga.

Forsagan er sú að með neyðarlögunum var gripið inn í rekstur bankanna og þeim skipt upp. Með sérstökum lögum sem kennd hafa verið við nóvember var þeim heimiluð greiðslustöðvun með tilteknum hætti sem var annar en sá sem annars gildir um gjaldþrota- og slitameðferð. Með lögunum í apríl var leitast við að setja slit gömlu bankanna í farveg sem væri traustur og þekktur bæði innan lands og erlendis og jafnframt viðurkenndur og byggður á gjaldþrotaskiptalögunum. Þarna héldu menn, eins og hér hefur komið fram, að sett væri undir alla leka en svo virðist ekki vera. Eins og hæstv. ráðherra sagði hefur verið bent á tvennt, forgangskröfur innlána í Þýskalandi og einnig hafa skilanefndir og jafnvel slitastjórnir einhverra af bönkunum ekki treyst sér til að greiða laun vegna þessara laga. Því er nauðsynlegt að grípa inn í þetta. Ég verð að segja að það er býsna víðtæk heimild sem hér er lögð til og ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra nefndi að bent hefur verið á að hana mætti þrengja. Ég lít svo á að við í hv. viðskiptanefnd munum skoða þann möguleika eins og kostur er án þess að skaða þann tilgang málsins sem hér hefur verið lýst.

Ég þakka hv. þingmönnum viðskiptanefndar, þeim Eygló Harðardóttur og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, fyrir yfirlýstan skilning á mikilvægi þessa máls og vænti þess að þegar því mun verða vísað til nefndar í lok 1. umr. að við getum hafist handa við vinnslu þess án tafar. Eins og ég lýsti reyndar á sérstökum aukafundi í viðskiptanefnd í hádeginu í dag hef ég reiknað með því að tími viðskiptanefndar í þessari viku, ef svo færi að þessu máli yrði vísað þangað núna, mundi fara að mestu í þetta mál. Það er þá gott til þess að vita að þeir fulltrúar stjórnarandstöðu sem hér hafa talað hafa lýst skilningi og stuðningi við að þetta mál verði sett í fremstu röð í vinnu nefndarinnar.