137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

erfðabreyttar lífverur.

2. mál
[14:45]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur en frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi og náði ekki fram að ganga.

Innan Evrópusambandsins var þann 12. mars 2001 samþykkt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/220/EBE. Markmið tilskipunarinnar er að samræma lög og stjórnsýslufyrirmæli aðildarríkjanna sem og að vernda heilsu manna og umhverfið við sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur er til innleiðingar á tilskipuninni í lög hér á landi. Tilskipunin varð hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið á árinu 2008 og er því orðið brýnt að innleiða tilskipunina í löggjöf hér á landi.

Tilskipun sú sem hér er fjallað um er endurskoðun á eldri tilskipun um sama efni. Nauðsynlegt var talið að skýra nánar gildissvið hinnar eldri tilskipunar og þær skilgreiningar sem þar er að finna. Litið var til þess að erfðabreyttar lífverur sem sleppt er út í umhverfið geta fjölgað sér í umhverfinu, borist yfir landamæri og afleiðingar þess orðið óbætanlegar. Talið var nauðsynlegt, til að vernda heilsu manna og dýra, að leggja tilhlýðilega áherslu á eftirlit með þeirri hættu sem fylgir sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið. Í því sambandi var talið nauðsynlegt að koma á sameiginlegri aðferðafræði við framkvæmd mats á umhverfisáhættu sem og sameiginlegum markmiðum varðandi vöktun erfðabreyttra lífvera eftir að þeim hefur verið sleppt eða þær settar á markað.

Tilskipunin kveður sem sé á um ítarlegri málsmeðferðarreglur en gert var í eldri tilskipun um sama efni. Tilskipunin kveður þannig skýrt á um hvaða gögnum og upplýsingum umsækjanda ber að skila þegar sótt er um leyfi, sem og um skyldur lögbærs stjórnvalds við afgreiðslu umsókna. Þannig er m.a. gert ráð fyrir að umsækjanda beri að framkvæma mat á umhverfisáhættu sleppingarinnar eða markaðssetningarinnar og að Umhverfisstofnun beri að semja matsskýrslu þegar sótt er um leyfi til markaðssetningar. Þar er ekki síst mikilvægt að kveðið er á um aukinn rétt almennings til aðkomu að málum er varða erfðabreyttar lífverur. Í samræmi við það er í frumvarpi því sem hér er mælt fyrir lagt til að settur verði nýr kafli inn í lögin sem fjallar um upplýsingagjöf til almennings og rétt almennings til að gera athugasemdir vegna fram kominna umsókna um að setja á markað erfðabreyttar lífverur eða vörur sem innihalda þær. Enn fremur er Umhverfisstofnun veitt heimild til að leita samráðs við almenning og eftir því sem við á tiltekna hópa um alla þætti fyrirhugaðrar sleppingar eða markaðssetningar erfðabreyttra lífvera áður en endanlega ákvörðun um leyfisveitingu er tekin.

Tilskipunin tekur sérstakt mið af varúðarreglunni og kveður á um að taka beri tillit til hennar við framkvæmd. Varúðarreglan er meginregla í umhverfisrétti sem m.a. er að finna í Ríó-yfirlýsingunni og felur í sér að skorti á vísindalegri fullvissu, þar sem hætta er á alvarlegu eða óbætanlegu tjóni, skuli ekki beitt sem rökum til að fresta kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem koma í veg fyrir umhverfisspjöll. Þetta má líka orða þannig að þegar fyrir hendi er vísindaleg óvissa um afleiðingar framkvæmda fyrir umhverfið, skuli náttúran njóta vafans. Þannig skal, eins og nafn reglunnar ber með sér, fara fram af varúð gagnvart umhverfinu.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.