137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

erfðabreyttar lífverur.

2. mál
[14:59]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 18/1996, um erfðabreyttar lífverur, þarf ekki að hafa mörg orð við 1. umr. Eins og komið hefur fram í þingsal mun hv. umhverfisnefnd taka málið til vandlegrar umfjöllunar venju samkvæmt, senda til umsagnar og fá inn ólík sjónarmið ef þau eru uppi um þetta tiltekna mál. Það liggur hins vegar fyrir að okkur ber skylda til sem aðila að hinu Evrópska efnahagssvæði að innleiða í íslenska löggjöf í samræmi við þá tilskipun sem hér er höfð að leiðarljósi lög sem kveða á um þau atriði sem hér eru lögð til, þ.e. ekki síst að mæla fyrir um aukna upplýsingaskyldu, leyfisveitingar og mat á hugsanlegri umhverfisáhættu af sleppingu erfðabreyttra lífvera hér á landi, um vöktunina og samráð sem Umhverfisstofnun á að hafa við hópa sem sérstaklega þarf að tala við í þessu sambandi.

Í fljóti bragði sé ég ekki annað en að hér sé tiltölulega skýrt mál á ferðinni. Ég veit hins vegar að fresturinn sem stjórnvöld höfðu til að innleiða tilskipunina rann út 28. mars 2008. Því miður er hann útrunninn og það setur einhvern þrýsting á starf nefndarinnar, en ég hygg að það ætti að vera hægt að taka málið til vandaðrar umfjöllunar og vonandi afgreiða það frá hinu háa Alþingi á sumarþingi.