137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

erfðabreyttar lífverur.

2. mál
[15:03]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs um þetta mál til að ræða það út frá aðeins öðrum nótum en hv. þingmenn hafa að hluta til verið að ræða það.

Við höfum á síðustu dögum, fyrstu dögum þessa sumarþings, fjallað yfirleitt í upphafi þingfundar um efnahagsmál, þau mál sem við þyrftum auðvitað helst að fjalla um og þau mál sem liggja hvað þyngst bæði á okkur þingmönnum og þjóðinni. Hins vegar eru gjarnan á dagskrá tilskipanir Evrópusambandsins, margar hverjar ágætar og um nauðsynleg mál, eins og til að mynda þetta og er hægt að taka undir þá góðu hluti sem í því eru, eins og varðandi varúðarreglu, þ.e. að taka tillit til umhverfisins eins og hægt er, og eins um upplýsingagjöf til almennings. Hins vegar veltir maður líka fyrir sér hvað liggi á að gera þetta núna þegar við höfum komist upp með að taka þessa tilskipun ekki upp í meira en ár. Hvaða kostnaður fylgir því að taka þessa tilskipun upp á þessum tímapunkti? Ættum við ekki hreinlega frekar að ræða hér almennt séð um að fresta öllum þeim tilskipunum sem munu hafa aukakostnað í för með sér fyrir þessa þjóð í eitt eða tvö ár á meðan við erum að kljást við efnahagsvandann? Við þurfum að komast út úr því þannig að fólk og fyrirtæki standi á eigin fótum og geti greitt þann kostnað sem við búum við.

Þetta mál er ekki það einasta sem snertir þennan vanda. Ég hef velt fyrir mér hvort við ættum ekki hreinlega að leggja fram þingsályktunartillögu um að fresta öllum þeim tilskipunum sem ekki skipta meira máli en svo að við höfum komist upp með að hunsa síðasta lokafrest í 14 mánuði, eða lengur, og einhenda okkur þá í þau efnahagsmál sem við vissulega þurfum að ræða miklu frekar og leysa þau vandamál.

Ég tek þó reyndar undir varnaðarorð hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um að mér þótti tónninn fullneikvæður við lesningu þessa plaggs um erfðabreyttar lífverur, einmitt í garð þeirra fyrirtækja sem við erum að reyna að efla nýsköpun hjá. Ég tek heils hugar undir þau varnaðarorð sem hann viðhafði í ræðu sinni varðandi það að fella út ákvæði um norðurslóðaástand landbúnaðar á Íslandi, ekki bara í sambandi við fyrirhugaðar aðildarviðræður við Evrópusambandið, heldur ekki síður hvernig tekið verður á einstökum málum þegar kemur til þess að sleppa einstaka lífverum út í takmarkað umhverfi. Þá skiptir gríðarlegu máli hvort verið sé að sleppa þeim út í Mið-Evrópu eða hvort við erum að tala um norðlægar slóðir Íslands.

Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. umhverfisráðherra að ein af þeim kröfum sem hér eru settar og eru gjarnan í þessum tilskipunum Evrópusambandsins snýst um að samræma reglur aðildarríkja Evrópusambandsins. Áhyggjurnar eru gjarnan og oftast vegna flutnings einhvers efnis, í þessu tilviki erfðabreyttra lífvera, yfir landamæri.

Nú búum við, eins og við öll vitum, á eyju langt úti í Atlantshafi og erum þar af leiðandi laus við mörg þessara vandamála. Þar fyrir utan er náttúra Íslands sem betur fer göfug og hrein en auðvitað eigum við að gera allt hvað við getum til að verja hana og halda því áfram. Ég velti því samt upp hvort við séum ekki hreinlega að eyða tíma okkar og hugsanlega fjármunum illa. Ég vildi gjarnan sjá hvaða kostnaðarauka þetta hefði fyrir ríki og stofnanir, en ekki síður fyrir þau fyrirtæki sem í landinu starfa. Það kemur ekki fram í þessu þar sem vaninn er því miður ekki að kostnaðarreikna frumvörp en er nokkuð sem við ættum kannski að taka upp.

Að endingu langar mig til að við áttum okkur á því um hversu stóran hluta við erum hugsanlega að tala í sambandi við sprotafyrirtæki sem þó eru ekki öll á þessu sviði. Það kom fram í ávarpi Finnboga Jónssonar, framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, á ársþingi nýlega, með leyfi forseta:

„Sá árangur sem mörg nýsköpunarfyrirtæki hafa sýnt á undanförnum árum staðfestir hvaða árangri má ná í atvinnuuppbyggingu á Íslandi í formi fjölbreyttrar flóru smærri fyrirtækja þar sem mannauðurinn er orkan og hreyfiaflið. Eitt mikilvægasta verkefnið í efnahagsmálum á komandi mánuðum og árum er að hlúa að og styðja við uppbyggingu þessara fyrirtækja. Verði það gert mun verða til fjöldi nýrra starfa og um leið auknar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.“

Ég hvet nefndina til að skoða ekki síður hvaða áhrif það mundi hafa á þau fyrirtæki sem starfa í þessu umhverfi, að fást við erfðabreyttar lífverur, sem sprotafyrirtæki í landinu.