137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[15:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til hamingju með sitt fyrsta þingmál. Þetta er auðvitað heilmikið efnislegt mál sem ástæða er til fyrir okkur að fara vandlega yfir og verður auðvitað gert í umræðunni sem fram undan er.

Ég vil líka óska honum til hamingju með það að þetta er dagurinn sem hvalveiðivertíðin er að hefjast að nýju. Það hlýtur að vera sérstakt ánægjuefni fyrir hæstv. ráðherra að geta verið í stóli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar þær veiðar hefjast. Ég óska honum innilega til hamingju með það og veit að hann hefði viljað vera viðstaddur og sleppa endanum þegar báturinn fór í fyrsta skipti frá bryggju núna um hádegið. En hann er auðvitað í miklum önnum og hefur ekki getað gert það. Engu að síður ítreka ég hamingjuóskir til hæstv. ráðherra með það að hafa verið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á þessum merka og góða degi.

Frumvarpið vekur athygli fyrir það að þetta er efnismikið frumvarp sem tekur til mjög margra atriða. Af því ég er langminnugur þá rekur mig minni til þess að hæstv. ráðherra, þegar hann var hv. þingmaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, gagnrýndi það stundum þegar lögð voru fram frumvörp með nokkrum óskyldum efnisatriðum. En á þessu sjáum við að hæstv. ráðherra er námsfús og hefur tekið fyrirkomulag okkar fyrirrennara sinna til greina og leggur nú fram frumvarp sem er með þremur eða fjórum efnismiklum og ólíkum atriðum. Þar er um að ræða skiptingu á karfastofnum, reglur varðandi veiðar í fræðsluskyni, reglur um hina svokölluðu frístundabáta og svo strandveiðifrumvarpið sjálft. Þetta er út af fyrir sig aðferð og ég gagnrýni hana ekki enda stundaði ég hana sjálfur, en hæstv. ráðherra er sem sagt námsfús maður.

Ástæða er til að nefna nokkur atriði í 1. umr. þessa máls sem verður svo tekið til efnislegrar meðhöndlunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þar sem ég á sæti, og mér gefst þess vegna tækifæri til að fara betur yfir það.

Hluti af þessu frumvarpi, þ.e. frístundaveiðibátahlutinn, 2. gr. frumvarpsins, kom inn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á síðastliðnu vori. Því miður tókst okkur ekki að afgreiða málið þá. Það var brýnt að afgreiða það vegna þess að það er mikilvægt fyrir þessa nýju atvinnugrein að hafa öruggan lagaramma til að starfa innan. Eins og hæstv. ráðherra rakti beitti ég mér fyrir því á sínum tíma að setja á laggirnar nefnd til að fara yfir þessi mál. Það er nefnilega mjög mikilvægt fyrir þessa nýju atvinnugrein að lagaumhverfið í kringum hana sé skýrt og öruggt þannig að menn viti að hverju ber að stefna.

Frumvarpið kom sem sagt inn í nefndina í vor og þar komu fram nokkur efnisatriði í gagnrýni frá umsagnaraðilum sem við höfðum íhugað að reyna að taka tillit til þegar málið væri í efnislegri vinnslu. Það eru tvö atriði í því sambandi sem mig langar sérstaklega að spyrja hæstv. ráðherra um. Í fyrsta lagi er vikið að því varðandi frístundaveiðibátana, í 1. tölulið 2. gr. frumvarpsins, að ekki sé heimilt að nota fleiri en fimm sjóstangir eða færarúllur samtímis á þessum bátum. Þetta var eitt af því sem var gagnrýnt mjög af hálfu þeirra sem reka sjóstangaveiðibáta sem fara í siglingar, til að mynda hér út á Faxaflóann. Þeir telja að þetta muni mjög þrengja að starfsgrundvelli þeirra og muni m.a. gera það að verkum að þeir verði að kaupa sér fleiri báta og leggja í óþarfafjárfestingu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna ekki hafi verið reynt að taka tillit til þessara sjónarmiða, hvort einhverjar efnislegar ástæður séu fyrir því að hæstv. ráðherra vildi ekki hlýða á athugasemdir og mótbárur þessara útgerðarmanna.

Í öðru lagi var nokkuð rætt um stöðu þeirra báta sem eru að róa núna, til að mynda í krókaaflamarki, en vilja jafnframt stunda það að fara með ferðamenn á sjóstöng. Í 2. gr. í frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Ekki er heimilt innan sama fiskveiðiárs að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni á báti sem fengið hefur leyfi til frístundaveiða.“

Nú er það þannig að dæmi eru um það að aðilar sem stunda fiskveiðar hafa reynt að drýgja tekjurnar með því að heimila það t.d. að fara út með ferðamenn til þess að róa og gefa þeim færi á að fiska og mundu þá væntanlega vera tilbúnir að leggja til aflaheimildir ef um það væri að ræða. En ég sé ekki betur á þessu en verið sé að girða algjörlega fyrir að þetta sé hægt. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að það beri að endurskoða þetta ákvæði, hvort hann sé tilbúinn til að opna á það að í nefndinni muni stjórnarliðið taka jákvætt í að þetta mál sé með einhverjum hætti endurskoðað til þess að koma í veg fyrir að aðilar sem þegar hafa haslað sér völl á þessu sviði geti haldið því áfram. Ég þekki slík dæmi um útgerðarmenn sem hafa með þessum hætti aukið fjölbreytnina í byggðarlögum sínum með þessari atvinnustarfsemi og enn fremur styrkt rekstrargrundvöll báta sinna.

Þetta er það sem ég vildi segja svona í upphafi máls míns varðandi 2. gr. frumvarpsins. En sú grein sem hér er þó aðallega til umfjöllunar að þessu sinni er ákvæði til bráðabirgða, tilraunaverkefnið strandveiðar, sem hæstv. ráðherra hefur verið að mæla fyrir. Gert var ráð fyrir því að með því fyrirkomulagi sem hér er verið að boða væri ætlunin sú að reyna að losa sig út úr byggðakvótanum, hverfa frá úthlutun byggðakvóta. Það var hinn yfirlýsti tilgangur frumvarpsins þegar það var boðað af hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrími J. Sigfússyni.

Hann vísaði til þess að verið hefði ágreiningur um byggðakvótafyrirkomulagið. Ég vil fullyrða að sá ágreiningur var orðinn mun minni vegna þess að búið var að fara yfir athugasemdir sem höfðu borist varðandi byggðakvótafyrirkomulagið og taka mjög mikið tillit til þeirra. Þessi endurskoðun gerði það að verkum að ekki var hægt að úthluta byggðakvóta fyrr en nokkuð var liðið á fiskveiðiárið. En allar forsendur voru til þess, fullyrði ég, að úthluta byggðakvótum strax í byrjun febrúar hefði verið til þess pólitískur vilji. Sá vilji var sem sagt ekki til staðar.

Nú hefur hæstv. ráðherra endurskoðað afstöðu sína og komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegt sé að viðhalda byggðakvóta á þessu tilraunatímabili þó að hann hafi boðað að hann verði skorinn niður um rúmlega helming. Út af fyrir sig hefði ég talið langsamlega skynsamlegast, eins og málum er háttað, að halda sig við það að úthluta byggðakvóta á þessu fiskveiðiári eins og reglur og lög kveða á um. Ef menn vildu síðan opna á möguleikana á strandveiðifyrirkomulaginu, eins og hér er verið að gera, væri það gert með þeim hætti að undirbúa það vel á þessu ári og setja lög og reglur um þetta til þess að menn gætu þá undirbúið sig eðlilega.

Núna er hins vegar gert ráð fyrir því að reyna að koma þessu máli í gegn á mjög skömmum tíma. Við sem höfum lengi verið viðriðnir það að breyta lögum um stjórn fiskveiða þekkjum að þetta eru flókin mál og oft koma upp á því angar sem menn sjá ekki fyrir og gera það að verkum að í þessum málum vakna upp alls konar draugar sem enginn sá fyrir. Það er líka greinilegt að hæstv. ráðherra hefur verið að vandræðast með þetta mál. Það sjáum við á þeim breytingum sem verið er að boða í þessu frumvarpi frá því sem upphaflega var talað um.

Frumvarpið er að mínu mati hvað verst að því leyti að það felur í sér tilfærslur á aflaheimildum, á fiskveiðirétti, frá veikustu sjávarbyggðum landsins til annarra byggða. Það er algjörlega óumdeilt. Hæstv. ráðherra hefur tekið um það ákvörðun að 55% af áætluðum úthlutuðum byggðakvóta skuli tekin og fiskveiðirétturinn á honum skuli ákveðinn með allt öðrum hætti.

Hæstv. fyrrverandi ráðherra hafði talað svo mikið um að það ætti að byggja þetta fyrirkomulag á úthlutuðum aflaheimildum sem hafa runnið til byggðakvótans og því hafði ég ímyndað mér að hæstv. ráðherra mundi búa þetta frumvarp þannig úr garði að þeir einir ættu rétt á þessum strandveiðum sem væru á svæðum sem njóta byggðakvótans. En þegar við skoðum frumvarpstextann, þetta bráðabirgðaákvæði, kemur í ljós að svo er ekki. Ekki er ætlunin að nýta þetta í byggðarlegum tilgangi. Þvert á móti er ætlunin að nota þetta í gagnstæðum tilgangi.

Hér kemur það greinilega fram að það er svæðið allt í kringum landið sem hefur þennan rétt til þess að stunda þessar strandveiðar og nota síðan til þessa verkefnis fiskveiðiréttinn sem sérstaklega var merktur minnstu og veikustu byggðunum í landinu. Það er að mínu mati ótrúleg hugsun á bak við þetta frumvarp. Ég gat ekki ímyndað mér að hæstv. ráðherra af öllum mönnum mundi verða til þess að færa með þessum hætti, með pólitísku handafli, fiskveiðiréttinn frá minnstu byggðarlögunum til annarra.

Hæstv. ráðherra rekur það í frumvarpinu — í fyrsta hópnum sem hefur rétt til þessara veiða er landsvæðið skilgreint frá Eyja- og Miklaholtshreppi. Ég kannaði það til gamans nú í morgun hvort það væru mjög margir bátar sem hefðu fiskveiðileyfi í Eyja- og Miklaholtshreppi, sem er í kjördæmi okkar hv. þingmanns. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef frá Fiskistofu og frá Siglingastofnun mun enginn bátur eiga þann möguleika í því sveitarfélagi. Þar hafa menn, eins og vitað er, stundað aðrar atvinnugreinar.

Frumvarpið mun líka leiða til þess að stærri hluti af fiskveiðiheimildunum, sem menn hafa verið að reyna að nýta allt árið um kring, í byggðarlegum tilgangi og til þess að byggja upp fyrirtæki sín, nýtist núna einungis yfir sumarmánuðina. Þetta er auðvitað mjög sérkennileg ákvörðun. Ákvörðun um það að stýra veiðunum þannig að þær séu stundaðar hluta af árinu og stuðla að því með vissum hætti og koma í veg fyrir það að menn geti byggt upp heilsársatvinnustarfsemi á minnstu og veikustu sjávarútvegsstöðunum í kringum landið. Þetta er mjög sérkennileg hugsun. Þetta er pólitísk stefnumótun en hún er mjög sérkennileg engu að síður.

Úr því að menn fara þessa leið að reyna að opna á — sem er út af fyrir sig ekkert útilokað sjónarmið að opna með einhverjum hætti á veiðarnar eins og hæstv. ráðherra er að boða en ég tel þó mjög sérkennilegt að gera það með því að leggja svona stór svæði til grundvallar. Tökum dæmi um landsvæði A, Eyja- og Miklaholtshrepp til og með Skagabyggð. Gert er ráð fyrir því að þeir sem róa frá þessum svæðum þurfi eingöngu að landa aflanum einhvers staðar á þessu svæði. Sá sem rær frá Arnarstapa getur þess vegna lagt upp á Skagaströnd og sá sem rær frá Skagaströnd getur þess vegna lagt upp á Arnarstapa. Þetta er út af fyrir sig ekkert óeðlilegt í hinu almenna fiskveiðikerfi en þetta er hins vegar mikið stílbrot frá því sem áður var varðandi byggðakvótann. Og við skulum ekki gleyma því að byggðakvótinn er uppistaðan í þeim fiskveiðirétti sem lagður er til grundvallar varðandi þessar strandveiðar. Þannig að það er í raun og veru, eins og ég sagði áðan, verið að veikja þessar minnstu byggðir. Í byggðakvótanum var líka gert ráð fyrir því að menn yrðu að landa tvöföldum heimildum sínum áður en þeir gætu fengið fiskveiðirétt. Hér er það ekki gert. Ekki er heldur neinn áskilnaður um það að menn leggi upp í sínum eigin byggðarlögum sem er í sjálfu sér líka til þess fallið þar með að veikja þessi byggðarlög.

Það má líka velta því fyrir sér hvernig menn hafa hugsað sér að fara með þetta allt saman. Í byggðakvótanum var gert ráð fyrir um 1.900 tonnum af ýsu, 1.300 tonnum af ufsa og einhverju lítilræði af steinbít. Nú vitum við öll að á handfæri munu þessar tegundir ekki veiðast í þessum mæli, langt frá því, það þekkjum við. Þá vaknar líka sú spurning, og það er spurning til hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hæstv. ráðherra fara með þær aflaheimildir sem þarna falla væntanlega dauðar niður? Hyggst hann ráðstafa þeim með einhverjum öðrum hætti? Það er spurning sem hæstv. ráðherra verður líka þá að svara.

Hæstv. ráðherra gerði töluvert mikið úr því að þessu kerfi væri ætlað að auka nýliðunina í sjávarútveginum. Það er út af fyrir sig gott og göfugt markmið. Margir hafa reynt það og við höfum verið að reyna það með því að lækka þröskuldinn, t.d. með því að búa til sérstakt smábátakerfi, t.d. með því að hafa byggðakvótann umrædda, t.d. með því að innleiða svokallaða nýliðun. Allt var þetta að hluta til gert í þeim tilgangi að lækka þennan aðgangsþröskuld inn í sjávarútveginn.

En hvað hefur gerst í kjölfarið í umræðunni sem hefur átt sér stað eftir að boðað frumvarp hæstv. ráðherra komst í hámæli? Það sem hefur gerst er að bátarnir hafa allt í einu fengið aukið verðmæti og færarúllur hafa fengið aukið verðmæti. Vegna þess að núna er það ekki lengur kvótinn sem takmarkar aðganginn. Ekki heldur dagarnir eins og var í gamla dagakerfinu. Núna er það báturinn, fiskveiðileyfi bátsins. Það sem hefur gerst er að þröskuldurinn inn í kerfið hefur hækkað að þessu leytinu og hæstv. ráðherra hefur þar með búið til nýtt fyrirkomulag sem býr til þröskuld gagnvart þeim sem vilja komast inn í þetta kerfi.

Virðulegi forseti. Ég hef aðeins komist yfir lítinn hluta af þeim málum sem mig langaði til að ræða í þessu sambandi. Það gefst hins vegar örlítið tækifæri til þess frekar hér á eftir. Ég hef fimm mínútur í síðari ræðu minni sem ég hyggst flytja og koma þá inn á fleiri atriði.