137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[15:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit lauk starfi síðustu ríkisstjórnar áður en kjörtímabilið var hálfnað þannig að því verkefni lauk einfaldlega ekki. Það var hins vegar ágætissamkomulag milli stjórnarflokkanna um þetta mál. Við höfum margoft rætt um hvernig við vildum haga því. Menn vita hins vegar að aðstæður í fyrrahaust voru ekki mjög þægilegar til þess að koma þessu verkefni af stað en það var auðvitað ætlunin að gera það í ársbyrjun á þessu ári. Um það var fullt samkomulag milli stjórnarflokkanna og hafði margoft verið rætt okkar í millum hvernig skynsamlegast væri að haga þessu máli.

Inn í þetta verkefni hefði síðan átt að koma almenn skoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu því að eins og stjórnarsáttmálinn var úr garði gerður var talað um að menn ættu að fara yfir reynsluna af aflamarkskerfinu og sérstaklega út frá sjónarhóli byggðanna þannig að það var ekki nein fyrirstaða, hvorki í Sjálfstæðisflokknum né í Samfylkingunni — það get ég líka fullyrt — gagnvart því að fara í þessa vinnu enda var þetta í stjórnarsáttmálanum og ætlunin var auðvitað að vinna það verk.