137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[15:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar aðeins að koma inn á orð hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar áðan varðandi byggðakvótann og þessi 55% sem verið er að færa frá veikustu byggðum landsins í annars konar kerfi. Það var orðið þannig, og ég get staðfest það sem sveitarstjórnarmaður sem þurfti að glíma við að úthluta byggðakvótum, að það var komin nokkur ró á hvernig staðið var að úthlutun byggðakvóta. Það var búið að breyta reglum og fara margoft í gegnum þessa hluti.

Hins vegar er alveg ljóst að með þessari aðgerð eins og hún lítur út — nú getur verið að hæstv. ráðherra eigi eftir að skýra málið betur — lítur út eins og verið sé að taka kvóta af veikustu byggðunum og til standi að útdeila honum með einhverjum öðrum hætti án þess að segja þá til um hvernig eigi að bæta þeim þá skerðingu sem þær svo sannarlega verða fyrir. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar um þetta mál.

Það er mjög sérkennilegt ef það verður eftirskrift þessarar ríkisstjórnar — það er kannski of snemmt að fara að tala um einhverja eftirskrift — að fara út í það allt kjörtímabilið að skapa óvissu um einstök mál og jafnvel heildarhagsmuni íslensks sjávarútvegs. Ég hvet ráðherra, af því að ég þekki vel til hans og veit að hann er mjög mætur maður, til að skoða vandlega þau áhrif sem þetta mun hafa á veikustu byggðir landsins.