137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[15:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má ýmislegt segja um hæstv. ríkisstjórn en ég vil samt koma henni til varnar þegar hv. þingmaður talar um að hún sé að skapa óvissu með þessu frumvarpi. Ég held að hún marki bara nokkuð skýra stefnu. Stefnan er alveg skýr að því leytinu að það er verið að taka um þá pólitíska ákvörðun að færa 55% af byggðakvótanum, sem er sá kvóti sem fer til allra veikustu byggðanna, til þeirra byggða sem hafa misst frá sér mest af aflaheimildum, þar sem fiskvinnslan hefur dregist mest saman, þar sem íbúafjöldinn hefur dregist saman. Þetta eru byggðirnar sem láta frá sér 55% af þeim kvóta sem sérstaklega er ætlaður til þerra sem er síðan ætlaður til annarra nota, það eru þá aðrir sem geta þá tekið þátt í því að veiða þessar aflaheimildir.

Það er alveg ljóst að grundvöllurinn að strandveiðunum er tiltekinn pottur, tiltekið aflamagn, hlutdeild úr úthlutuðum kvóta, sem fer þá síðan til ráðstöfunar annars staðar. Þetta er alveg sjónarmið, menn geta sagt sem svo að þetta sé góð og gild stefna í sjálfu sér og lýtur mjög að því sem Samfylkingin hefur t.d. talað um, þessu jafnræði sem menn tala mjög mikið um og tengist til að mynda fyrningarleiðinni. Ég hafði satt að segja ekki átt von á því að hæstv. ráðherra Jón Bjarnason mundi gera það að sínu fyrsta máli að gangast undir þetta jarðarmen og sýna á spil sín með þeim hætti að veikja fiskveiðirétt allra veikustu sjávarbyggðanna í landinu. Því hefði ég satt að segja ekki trúað að óreyndu.