137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[15:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir árnaðaróskir hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar til hæstv. sjávarútvegsráðherra um að hann skuli vera í ráðherrastól þegar hvalveiðar fara af stað. Ég vil líka benda honum á að koma endilega þeim skilaboðum til stjórnarflokkanna, þar sem ég veit að meiningar í þessu máli eru misjafnar, að við þessi mótmæli í London sem nú er skrifað um í blöðunum í nafni margra friðunarsamtaka eru mættir allir 10–15 félagarnir í þeim. Það eru mjög bjartar horfur fyrir ferðamannasumarið á Íslandi eftir upplýsingum frá ferðaþjónustunni þrátt fyrir hrakspár um annað. Einnig er áhugavert að geta þess að sigurþjóðirnar í sönglagakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva voru hvalveiðiþjóðirnar Norðmenn og Íslendingar. Þetta eru öll áhrifin af þessum hvalveiðum okkar.

Það virðist liggja mikið á hjá þessari ríkisstjórn, ég veit ekki hvort menn reikna þar með frekar stuttum líftíma, en aðgerðirnar sem við horfum á í þessu frumvarpi bera þess merki. Ég hefði viljað heyra frá hæstv. ráðherra á eftir hvenær hann telur að afgreiðslu þessa máls ljúki eða hver hans markmið eru. Hv. formaður sjávarútvegsnefndar, Atli Gíslason, mætti kannski koma inn á það líka fyrir okkur sjávarútvegsmenn.

Það sem setur óvissu í sjávarútvegsmálin almennt er fyrst og fremst boðuð fyrningarleið og þær strandveiðar sem nú er verið að mæla fyrir á þinginu. Það var ljós í myrkrinu að hlusta hér á hæstv. sjávarútvegsráðherra í síðustu viku í umræðu um sjávarútvegsmál þar sem berlega kom í ljós að innan Vinstri grænna eru komnar ákveðnar efasemdir um þessa fyrningarleið. Menn átta sig kannski á því að hún er ófær og verður ekki farin eins og lofað var í kosningabaráttunni.

Mikla óvissu setur að grunnstoðinni í samfélaginu, sjávarútvegi, þegar talað er um breytingar á byggðakvóta. Óvissu hefur líka sett að sjávarútvegi og hvalveiðum eftir að núverandi ríkisstjórn kom til valda. Á þeim vettvangi eru menn tvístígandi og leggja ekki í þær fjárfestingar sem fyrirhugaðar voru til að geta byggt upp hér atvinnuveg til margra ára.

Afleiðingarnar varðandi þessar svokölluðu strandveiðar og þessa fyrningarleið sem eru í pípunum endurspeglast í því að útgerðarmenn smábáta og stærri báta halda nú að sér höndum í allri fjárfestingu og allri skipulagningu og viðskipti með kvóta liggja að miklu leyti niðri. Þetta endurspeglast í því að bátar liggja bundnir við bryggju, menn komast ekki á sjó vegna þess að þeir geta ekki hagrætt og geta ekki veitt eins og þeir gætu ef aðstæður væru eðlilegar.

Komið hefur verið inn á það hér að verð á smátrillum og búnaði þeim tengdum til að fara í þessar svokölluðu strandveiðar hefur rokið upp og er að mörgu leyti orðið óeðlilegt. Margir bátar sem eru komnir til ára sinna eru farnir að fá verð sem ekki hefur sést í langan tíma. Af því má draga þá ályktun að miðað við þessar aðstæður sé nýliðun gerð erfiðari í þessari grein þar sem verð á þeim hlutum sem til þarf hefur rokið upp og það verður erfiðara fyrir fólk að hefja þennan rekstur. Það eru kannski helst þeir sem hafa reynsluna og hafa selt sig út úr greininni sem er verið að hygla með þessu og það eru þeir sem maður hefur heyrt mörg dæmi um að horfi til þess að fara af stað aftur í þessar veiðar. Þessar aðgerðir auka þannig í raun, má segja, skuldsetningu á greinina í heild sem kannski mátti ekki við því vegna þess að ekki fjölgar fiskunum við þessa aðgerð.

Það er full ástæða til að skoða breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og það kom fram í stjórnarsáttmála þarsíðustu ríkisstjórnar, þ.e. ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, að það ætti að fara í úttekt á fiskveiðistjórnarkerfinu þó að ekki ynnist tími til þess á þeim tíma. Þannig höfum við sjálfstæðismenn lýst áhuga og vilja til þess að fara í úttekt og skoðun á þessu kerfi til að leita sátta um það sem mögulega mætti fara betur.

Ágreiningur um íslenska fiskveiðistjórnarkerfið á ekki rætur í úthlutun á veiðirétti á sínum tíma, heldur má segja að veiðiréttur smábátasjómanna og útvegsmanna hafi verið minnkaður og takmarkaður við ákveðið hlutfall úr hverjum stofni. Deilurnar snúast fyrst og fremst um framsal sem sett var í lög árið 1990 þegar í ríkisstjórn sátu m.a. hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Þegar ráðherrarnir knúðu þá samflokksmenn sína til að samþykkja frumvarpið um fiskveiðistjórnina og frjálsa framsalið nefndi hvorugt þeirra hugtakið ranglæti. Þau voru ekki að tala um ranglætið þá en þeim verður tíðrætt um það í dag.

Einhver útfærsla á framsali var nauðsynleg til að ná fram aukinni hagræðingu í greininni en það sem deilunum hefur valdið er fyrst og fremst mikill hagnaður þeirra sem selt hafa sig út úr greininni. Allar þær breytingar sem við viljum gera á núverandi kerfi verða að taka mið af þessum staðreyndum og þær verða að snúa að því að við eflum þessa sterku grunnstoð íslensks samfélags í stað þess að rífa hana niður og skapa um hana mikla óvissu. Þær breytingar sem hefur verið kallað eftir og menn eru að mörgu leyti sammála um að þurfi að skoða eru t.d. aukin veiðiskylda þar sem þeim sem hefur verið úthlutað veiðiheimildum er gert að veiða hærra hlutfall til að minnka leigumöguleika. Leigumöguleikinn verður þó að vera fyrir hendi til að gæta hámarkshagræðingar í greininni en það er hægt að sjá hærra hlutfall í þessu án þess að það skaði greinina.

Það þarf líka með einhverjum ráðum að koma í veg fyrir að þeir sem eiga báta á kambi og fara í kringum kerfið, sem eru örfáir aðilar í landinu og setja svartan blett á sjávarútveginn, geti stundað slíka leigu. Það þarf að finna leiðir sem greiða fyrir einhverri nýliðun inn í kerfið þannig að duglegu fólki sem er tilbúið að leggja á sig mikla vinnu sé skapaður farvegur. Sú leið sem nú er valin er tæplega til þess fallin. Það verður að vanda til þessarar vinnu og það verður að gefa þessu þann tíma sem til þarf. Annað er til þess fallið að skapa þá óvissu sem við höfum enga þörf fyrir og megum í raun alls ekki við, eins og við búum við núna.

Þeir sem starfa í greininni í dag, almennt séð, langflestir, hafa ekki gerst sekir um annað við þessar aðstæður en að fara nákvæmlega eftir þeim reglum sem voru settar í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar árið 1990 þar sem í sátu hæstv. ráðherrar Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir. Þeir hafa bara spilað eftir þeim reglum og engum öðrum og nú á að fara að refsa fólki fyrir það.

Í þessu frumvarpi má segja að grundvallarregla byggðakvótans sé brotin, grundvallarreglan um að reyna að efla atvinnulíf í veikustu byggðum landsins, í þeim byggðum sem verst hafa farið út úr kvótakerfinu og í því að kvóti hefur verið seldur frá einu byggðarlagi til annars. Það er skilyrt í byggðakvótakerfinu að ef menn ætla að fá þar úthlutun verða þeir að hafa landað til vinnslu í heimabyggð sinni til að efla atvinnustarfsemi í sinni byggð. Þeir verða að hafa landað a.m.k. tvöföldu því magni sem þeir eiga möguleika á að fá byggðakvóta á. Það þarf ekki í þessu nýja kerfi, strandveiðikerfinu. Eins og þingheimur veit kem ég úr kjördæmi sem telst til þéttbýlisins á suðvesturhorninu, Suðvesturkjördæmi, og ég veit um menn í mínu kjördæmi sem horfa til þess núna að fara að að róa hér frá þéttbýlisstöðum á suðvesturhorninu til að nýta sér þá leið sem hæstv. sjávarútvegsráðherra boðar nú.

Hvers eiga þeir að gjalda sem hafa á þessu fiskveiðiári úti um allt land, í veikustu byggðum landsins, unnið eftir settum reglum, þeim reglum sem hafa verið í gildi? Þeir hafa ekki elt hæsta verð sem þeir mögulega gátu fengið fyrir afurðir sínar, heldur landað til vinnslu í heimabyggð sinni, bundið tryggð við fiskvinnslu og fólkið í heimabyggð sinni til að skapa þar atvinnu. Þeir hafa gert þetta í því skjóli og þeirri vissu að þeir legðu þá grunn að því að fá úthlutað byggðakvóta sem nú er allt upp í loft með.

Þessir aðilar hafa líka skipað í nánu samstarfi við vinnslurnar í sinni heimasveit, í sínum byggðarlögum, þannig verkum að hagstætt væri fyrir alla aðila. Menn hafa tekið sumarfríin á sama tíma, horft til þess að reyna að ná í meiri afla þegar verðmætin eru mest og slegið af þegar það er hagstæðara. Þannig hafa menn getað skipulagt sig en allt þetta er hæstv. ráðherra að setja í uppnám, alla þessa hagræðingu, og hann er að setja á ólympískt veiðikerfi þar sem menn munu róa hver sem getur og klára þann afla á skömmum tíma, sama hversu mikið verðmæti fæst fyrir hann. Því er lítið stjórnað. Um er bara að ræða sumarveiðar. Það sem byggðakvótinn hefur snúist um er að skapa heilsársvinnu, útvega vinnslunum hráefni allt árið.

Þetta kemur sér líka misvel fyrir staði á landsbyggðinni. Það er nefnilega mislangt á miðin. Það eru dæmi um staði á landsbyggðinni, innan þeirra svæða sem rætt er um í þessu frumvarpi, þar sem nánast verður ómögulegt að stunda þetta vegna þess að menn þurfa að sækja það langt að það getur hreinlega reynst hættulegt. Þá komum við að því sem skiptir líka máli í þessu, í stað þess að missa frá sér kvóta til fjölmennari svæða er viðbúið að fólk reyni að vinna eftir þessum reglum. Það að takmarka veiðarnar við það að mega ekki veiða á laugardögum og sunnudögum — hvað ef það er búið að vera vont veður alla vikuna og spáin fyrir vikuna á eftir er slæm, af hverju er mönnum þá ekki heimilt að róa á laugardögum og sunnudögum, dugmiklu fólki sem vill vinna? Er það markmið ráðherrans að skipa frídaga í fleiri greinum, alveg sama þótt það dragi úr öllu hagræði sem í greininni er?

Ég vil endurtaka það sem ég sagði um hættuspilið sem þetta getur kallað á. Þetta getur hvatt menn til að fara á sjó þegar veður eru jafnvel válynd og ætla að reyna að sleppa heim áður en stormur skellur á. Við viljum ekki sjá það endurtaka sig í íslenskum sjávarútvegi að menn hætti sér of mikið af því að kerfið býður ekki upp á annað.

Annað vekur athygli, eftirlitsmálin. Það er augljóst að það verður mjög auðvelt að fara í kringum þetta kerfi að mörgu leyti. Það eru ákveðin dæmi um það sem ég ætla ekki að fara yfir hér í ræðustól en við munum örugglega ræða í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Mér þykir einsýnt að eftirlitsiðnaðurinn muni blómsta í kringum þetta með öllum þeim kostnaði sem það felur í sér fyrir greinina og þjóðina. Það er nokkuð sem við þurfum ekki núna, að auka eftirlitsiðnaðinn.

Mér er reyndar ekki til efs að hæstv. ráðherra setji þetta mál fram með góðum ásetningi en ég er líka jafnviss um að málið hefur alls ekki fengið þá skoðun og þá umræðu í hans ranni og innan hans ráðuneytis sem þörf er á. Það er margt sem bendir til þess við nánari skoðun, eins og ég hef rakið hér, að þetta mál nái alls ekki þeim markmiðum sem lagt er upp með, það sé miklu frekar til þess fallið að skapa óvissu og óhagræði, og væntingar sem eru óheppilegar þegar síst skyldi.

Ég lýsi mig tilbúinn til að taka þátt í vinnu við yfirferð, endurskoðun og úttekt á fiskveiðistjórnarkerfinu og að reyna að ná einhverri sátt um þá þætti sem ósátt er um í kerfinu. Ég er reyndar þess fullviss og er á þeirri skoðun að þegar við förum í upplýsta umræðu og hlutlausa úttekt á fiskveiðistjórnarkerfinu muni koma í ljós allir þeir kostir sem það prýða. Það eru nefnilega mjög margir kostir við íslenska sjávarútvegskerfið og það er engin tilviljun að þjóðir heims líta til okkar þegar horft er til framtíðar í málefnum sjávarútvegs, nú síðast í Evrópusambandinu.

Við munum leggja á það áherslu að afleiðingar þessa frumvarps, sérstaklega hvað varðar strandveiðarnar, verði skoðaðar alveg sérstaklega í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og þar verði tekið tillit til þess þar sem verið er að hreyfa við þessum umdeilda byggðakvóta að menn gæti hagsmuna þeirra byggða sem veikastar eru (Forseti hringir.) og að það kerfi sé hugsað til að efla atvinnulíf.