137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:12]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög athyglisvert að heyra núna hv. þm. Jón Gunnarsson og Einar Kristin Guðfinnsson lýsa áhyggjum sínum af nýliðun í sjávarútvegi og það í tilefni af því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram. Ég held að það sé einmitt til þess fallið að auka sveigjanleika í kerfinu og opna það frekar en verið hefur og opna fyrir aðkomu nýrra aðila í greininni, til strandveiða annars vegar og til frístundaveiða hins vegar. Ég sé alveg fyrir mér að sjálfsagt munum við í sjávarútvegsnefnd þurfa að ræða ýmis útfærsluatriði, og margt af því sem hér hefur verið nefnt er vel umræðunnar virði í nefndinni en mér þykja hrakspárnar fullsnemma á ferðinni, sérstaklega í ljósi þess að hér er lagt til tilraunaverkefni sem metið verður í ljósi reynslunnar eftir eitt ár.

Í þessu frumvarpi er að mínu mati margt merkilegt og vel tilraunarinnar virði, skref í rétta átt, og ég vona að okkur farnist vel í nefndinni við að leggja þessu frumvarpi gott til. Ég segi fyrir mig að ég mun spennt fylgjast með reynslunni sem verður af þessari tilraun þegar sá tími er liðinn.