137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra talar mikið um Einar K. Guðfinnsson. Það er greinilegt að hann saknar hans úr ráðuneytinu (Sjútv.- og landbrh.: Það er ágætur maður.) Já, síðan hann var skorinn niður.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur undir efasemdir mínar í sambandi við frumvarpið. En eitt er það sem ég næ ekki alveg. Hann tekur 55% af byggðakvótanum í þorskinum inn í strandveiðifrumvarpið og síðan tekur hann 2.500 tonn í viðbót af þorski. Hvaðan koma þau 2.500 tonn af þorski í viðbót við það sem fer inn í strandveiðikerfið? Þau koma væntanlega ekki af himnum ofan þannig að það er einhver aukaúthlutun sem ráðherrann hlýtur að hafa tekið. Ég skil því ekki af hverju ekki er hægt að úthluta einhverjum ufsakvóta inn í þetta. Það er hlutur sem ég kveiki ekki á.

Ufsakvótinn í krókaaflamarkskerfinu hefur undanfarin ár að hluta til verið vannýttur. Ég sé því ekki hvað það er, af því að hæstv. sjávarútvegsráðherra tekur undir þessar áhyggjur mínar — að hafa þá ekki heildaraflamagn á hverjum degi en ekki bundið við ákveðnar tegundir, sem stoppar það af að hann geti þá fært ufsa þar inn líka.