137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:58]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu. Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta sem kom fram í framsögu hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég vil einnig vísa í mjög góða ræðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Fyrir mér er þetta frumvarp fagnaðarefni. Ég vonast eftir því að menn nálgist þetta viðfangsefni með opnum huga og með jákvæðum hætti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd með það fyrir augum að hér er um skammvinna tilraun að ræða sem örugglega mun verða metin og endurmetin og endurskoðuð þegar sumarið er liðið. En opinn hugur og jákvæðni er allt sem til þarf í þessu máli.

Ég vil taka það fram að ákvæði frumvarpsins um frístundaveiðar var flutt af sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd á vorþingi. Allgóð sátt skapaðist um það mál, að ég held, og það er endurflutt hér. Það er hins vegar rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, að í því frumvarpi eru atriði sem þarf að skoða í nefndinni og það verður gert. Komið hefur fram gagnrýni á stangafjölda og fleira sem við í nefndinni munum ábyggilega taka til skoðunar og afgreiða.

Hvað varðar ákvæði til bráðabirgða þá er verið að opna kerfið af miklu lítilræði. Þetta er tilraun og ég fagna henni enn og aftur. Þessari tilraun fylgja ábyggilega kostir og henni fylgja líka ábyggilega gallar. Sumir eru fyrir séðir en ég met það svo að kostirnir við það að prófa þetta nú í sumar séu mun fleiri en gallarnir og það sé þess virði að reyna þetta. Hér er um að ræða lítilræði af heildaraflanum. Við erum líka að tala um lítilræði sem fór í byggðakvótann og ég tek undir þau orð sem hér hafa komið fram að ekki hefur verið sátt um byggðakvótann. Hann hefur valdið illvígum deilum í einstökum byggðarlögum og á landsvísu. Ég held að fá önnur ágreiningsmál hafi leitt til fleiri kvartana til umboðsmanns Alþingis en byggðakvótinn. Því er þó ekki að neita að á upphaflegum reglum hefur orðið bragarbót en þær hafa samt reynst ófullnægjandi. Ég vil líka taka það fram að komi það í ljós eftir sumarið að þetta lítilræði í heildarafla sem við höfum verið að tala um valdi því að veiking verði í veikustu byggðarlögunum, eins og hér hefur verið bent á að kunni að verða, verður auðvitað að bregðast við því. Því fer fjarri að það sé tilgangur þessara laga að veikja byggðarlögin. Þvert á móti er það tilgangurinn að reyna að styrkja byggðarlögin í kringum landið. Það er verið að auka við kvótann.

Ég get hins vegar líka tekið undir þá gagnrýni að það væri æskilegt, í ljósi þeirra orða sem hér féllu um meðafla í ufsa, að huga vel að því í nefndinni. Það er mál sem verður tekið til skoðunar. Það er eflaust margt umdeilanlegt í svona sóknarkerfi, takmörkuðu sóknarkerfi. Ég las einu sinni ágæta bók sem heitir Landslag er aldrei asnalegt þar sem ævinlega var sólskin og blíða á banndögum og menn voru farnir að ráða í veður eftir banndögum og helgum. Kannski hefur það verið ofsagt en skáldsagan var góð og hvatning fyrir alla sem hafa áhuga á sjávarútvegsmálum að lesa hana en hún fjallar um krókaveiðimenn á Ströndum.

En ég segi enn og aftur: Þetta er fagnaðarefni, þetta er gagnmerk tilraun og hún er fjarri því til þess fallin að kollvarpa einhverju kerfi. Því fer fjarri miðað við hvað þetta er lítið brot af heildarafla landsmanna. Ekki er verið að taka neina áhættu og ég ítreka að komi það í ljós að byggðakvótakerfið eða byggðakerfið raskist með þessu verðum við að endurskoða þetta í haust. Frumvarpið verður endurskoðað í ljósi reynslunnar í haust, strax í haust. Þetta er tilraun sem varir í tvo og hálfan mánuð ef vel gengur með frumvarpið. Við munum endurmeta og meta málið að fullu.

Ég vil taka það fram að að mínu mati ber nauðsyn til að afgreiða þetta mál hratt og örugglega en um leið faglega. Ég bind vonir við að hægt sé að gera þetta frumvarp að lögum fyrir 15. júní. Ég bind vonir við það. Ég bind vonir við það að til þessa verks komi nefndarmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd með jákvæðu viðhorfi og opnum huga þannig að þessi tilraun megi fara af stað strax. Menn binda miklar væntingar við þetta. Á stundum hafa menn í þessum væntingum farið allnokkuð fram úr sér í ljósi þess hversu þessi aflahlutdeild, eða sá afli sem þarna er ætlaður til, er lítill. En svona erum við Íslendingar oft, við gerum okkur meiri væntingar en efni standa til. En lögin verða endurskoðuð í ljósi reynslunnar.

Frú forseti. Ég vil líka gera örstutt að umtalsefni bráðabirgðaákvæði II um að skipta leyfilegum heildarafla af karfa upp í gullkarfa og djúpkarfa. Um það er sátt.