137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Örstutt. Það er búið að segja svo sem allt sem þarf að segja í 1. umr. um strandveiðifrumvarpið og kalla að mestu leyti fram það sem þarf að koma fram.

En ég vil þó koma inn á, af því menn tala um þessa nýliðun í greininni, hvernig hún hefur verið í gegnum tíðina og rifja upp forsenduna fyrir kvótakerfinu þegar menn settu það á. Það var gert eftir að svört skýrsla kom frá Hafrannsóknastofnun. Menn hafa kallað það gjafakvótakerfið og voru skertir um 40% af atvinnurétti sínum. Þeir sem veiddu jafnan 1.000 tonn fengu að meðaltali 600 tonn.

Það kom fram í máli hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar að búin er að vera endalaus tilfærsla innan kerfisins. Það er ágætt að rifja það upp við þessar aðstæður. Frá því að kvótakerfið var sett á eru stjórnvöld búin að færa 38% af heimildunum til frá einum aðila til annars með stjórnvaldsaðgerðum.

Það er grátlegt til þess að vita að menn sem búnir eru að selja sig út úr greininni, jafnvel margoft, skuli nú koma eina ferðina aftur inn. En ég geri hins vegar ekkert lítið úr því sem hv. þm. Atli Gíslason sagði hér áðan, það er kannski ekki hægt að girða fyrir það. Ég held að það sé nokkuð rétt hjá honum að það sé ekki hægt, því miður, þótt ég efist ekki um að allir hafi vilja til þess.

En það sem er þó verst við þetta er að þegar menn hafa fært til þessar heimildir hefur það alltaf verið gert á kostnað vertíðarflotans. Við erum nánast búin að rústa vertíðarflotanum víðast hvar um landið. Það er gert með þeim hætti að menn hafa verið í endalausum tilfærslum á veiðiheimildum frá stærri bátunum yfir til þeirra minni. Það er grátlegt til þess að hugsa að það hafi verið gert í gegnum tíðina. Eins var mjög afdrifaríkt þegar menn fóru í hinn mikla niðurskurð á þorski úr 190 þús.tonnum niður í 130 þús. tonn sem var alveg skelfilegt.

En ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að halda því til haga að frá því að kvótakerfið var sett á er pólitíkin búin að færa 38% af heimildunum handvirkt frá einum aðila til annars. Það hefur því miður ekki alltaf heppnast vel.