137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

meðhöndlun úrgangs.

4. mál
[18:05]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vænti þess eins og hv. þm. Magnús Orri Schram að málið hljóti efnislega og ítarlega yfirferð hjá umhverfisnefnd og fljóta og málefnalega afgreiðslu þaðan. Ég deili einnig með honum áhyggjum af því hversu fáir þingmenn eru í salnum þegar þetta mál er rætt, en neita því ekki að sá grunur læðist að mér að það sé að hluta til angi af þeirri umræðu sem hefur átt sér stað á þessum fyrstu dögum vorþingsins um mismunandi mikilvægi mála sem hér eru lögð fram. Ég ítreka að hér er um gríðarlega mikilvæg mál að ræða í þessum málaflokki sem sú sem hér stendur stendur fyrir í nýju ráðuneyti hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Orra Schram fyrir að standa hér vaktina fyrir umhverfisnefnd þingsins.