137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[18:11]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það má kannski segja að frumvarpið sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mælti fyrir rétt í þessu sé eins konar iðrunar- og yfirbótafrumvarp hans. Þetta mál á sér nefnilega þann aðdraganda að við afgreiðslu fjárlaga síðasta haust var tekin sú ákvörðun, í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem uppi eru í þjóðarbúskapnum, að bæta ekki að fullu með verðbótum búvörusamninginn eins og gert hafði verið ráð fyrir í samningnum. Þá var höfð uppi mikil gagnrýni á þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna en það má segja sem svo að með þessu frumvarpi hæstv. ráðherra — sem hann á vissan hátt hefur tekið í arf frá forvera sínum, hæstv. þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrími J. Sigfússyni — hafi hæstv. ráðherra að yfirlögðu ráði og eftir að hafa skoðað málin komist að þeirri niðurstöðu að því miður voru efnisleg rök fyrir því að fara þá leið sem við urðum að fara fyrir áramótin, að fara inn í búvörusamningana og skerða verðbæturnar eins og allir vita.

Af hverju var það gert? Það var auðvitað gert vegna þess að við vorum í mjög miklum erfiðleikum alveg eins og við erum í í dag. Það hafði orðið hrun hér í efnahagslífinu, bankakerfið hafði hrunið sem olli því að fram undan var 10% minnkun þjóðarframleiðslunnar með tilheyrandi afleiðingum fyrir ríkisbúskapinn og tekjuforsendur fjárlaga. Það varð því niðurstaðan að fara með verðbótaþátt búvörusamninganna með sama hætti almennt talað og var verið að gera í almannatryggingakerfinu, þ.e. að láta verðbæturnar vera þær sömu og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram 1. október sl., sem var 5 eða 6% eða eitthvað á því bilinu. Hins vegar var það ljóst eftir að búið var að endurskoða bæði verðlagsforsendur, tekjuforsendur og útgjaldaforsendur fjárlaganna fyrir yfirstandandi ár, þetta ár, næsta ár, árið 2009, að allar líkur voru á því að verðbólgan yrði talsvert meiri en við höfðum gert ráð fyrir í forsendum fjárlagafrumvarpsins haustið 2008. Þess vegna var flutt sérstakt frumvarp sem fól það í sér að ekki yrði gert ráð fyrir að verðbæta samningana að fullu og eingöngu yrði fylgt þeim verðbótahugmyndum sem settar voru fram í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2009 sem lagt var fram haustið 2008 eins og ég var hér að segja.

Þá var mjög spurt um réttmæti þess að gera þetta og m.a. spurt um réttmæti þess gagnvart stjórnarskránni. Eins og ég rakti þá í umræðum í þinginu, aðspurður um þessa þætti, voru ótvíræðar heimildir — þær voru umdeildar en að okkar mati ótvíræðar — til þess að fara inn í samningana með þeim hætti sem gert var vegna þess að fjárveiting á hverju ári verður að vera heimiluð á Alþingi og það er þess vegna Alþingi sem getur tekið um það ákvörðun hvernig farið er með þessi mál.

Það er auðvitað æskilegast, þegar svona mál koma upp, að hægt sé að ná samkomulagi milli aðila í þessum efnum. Það var sannarlega ásetningur minn að ræða þessi mál við forustumenn bænda, sem ég og gerði, áður en hin endanlega ákvörðun var tekin og kynnt hér í þinginu. Ég skildi það auðvitað mjög vel að forustumenn bænda gátu við þessar aðstæður ekki axlað þá ábyrgð með ríkisvaldinu að samþykkja þær skerðingar sem gert var ráð fyrir á verðbótaþætti búvörusamninganna. Ég lýsti því hér yfir úr ræðustól Alþingis 16. desember að ég hefði fullan skilning á þessu viðhorfi forustumanna bænda — það hefði að mínu mati verið óeðlilegt að ætlast til þess að Bændasamtökin tækju á sig ábyrgð á því að skerða kjör umbjóðenda sinna.

Hitt er það að þegar þessum málum hafði verið ráðið til lykta hér á Alþingi, með samþykkt fjárlaga og samþykkt þess lagafrumvarps sem lá til grundvallar, átti ég allnokkra fundi með forustumönnum bænda þar sem við ræddum þessi mál. Ég get greint frá því, enda hefur það komið fram opinberlega, að þær hugmyndir sem nú liggja til grundvallar í þessu iðrunar- og yfirbótafrumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eru í raun og veru þær hugmyndir sem var verið að ræða milli mín og forustumanna Bændasamtakanna á sínum tíma, þ.e. að viðurkenna með formlegu samkomulagi einhverjar skerðingar á verðbótaþætti búvörusamninganna í ljósi þeirra alvarlegu aðstæðna sem uppi eru í efnahagslífi okkar en jafnframt að gera ráðstafanir til þess að lengja í búvörusamningunum og búa þannig til meiri fyrirsjáanleika fyrir bændur í landinu.

Þetta er að mínu mati skynsamleg niðurstaða og ég ætla ekki að gera efnislegar athugasemdir við frumvarpið. Ég mun í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd reyna að leggja því lið og tel að þetta sé skynsamleg niðurstaða í ljósi erfiðra aðstæðna — niðurstaða sem út af fyrir sig er erfið fyrir forustumenn bænda og bændur í landinu, þeir mega ekki við tekjuskerðingu eins og okkur er öllum ljóst. En aðstæðurnar sem uppi eru — og ég tel raunar, eins og ég margítrekaði í umræðunni um þessi mál fyrir áramótin, að býsna viðunandi niðurstaða hafi fengist í ljósi aðstæðna, þ.e. að búvörusamningarnir væru almennt talað verðbættir með sambærilegum hætti og almannatryggingarnar. Það er í sjálfu sér það sem verið er að lögfesta hér með þeim breytingum sem hæstv. ráðherra mælir fyrir en er, eins og hæstv. ráðherra nefndi, auðvitað háð því að þetta verði samþykkt af bændunum sjálfum. Þetta er breyting á búvörusamningi. Búvörusamningarnir hafa verið bornir undir bændur og þess vegna er eðlilegt að breytingar á þessum samningi verði líka bornir undir bændurna í almennri atkvæðagreiðslu eins og gert er ráð fyrir að sé gert.

Ég vil hins vegar gera hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þann greiða að endurtaka spurningar sem hæstv. ráðherra lagði fram á sínum tíma þegar þessi mál voru rædd hér í desember. Þá spurði hæstv. ráðherra m.a. hvort menn hefðu reiknað það út hver áhrifin yrðu af þessum skerðingum á búvörusamningunum á verðlag í landinu, á matvælaverð í landinu. Hv. þingmaður, eins og margir aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sagði sem svo að það að skerða búvörusamningana mundi væntanlega þýða hvort tveggja að bændur tækju á sig skerðingu og að menn reyndu að velta þessum tekjuskerðingum út í verðlagið með því að knýja fram hærra verðlag á matvöru.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra þar sem hann hefur haft góðan tíma til þess að fara yfir þessi mál — samningarnir hafa verið gerðir, þeir hafa átt sinn aðdraganda eins og ég rakti — hvort hann hafi reynt að gera gangskör að því að komast að því hver væru möguleg áhrif þessara breytinga á samningunum á matvælaverð í landinu o.s.frv.

Það er nefnilega þannig að þessi mál áttu sér líka þann aðdraganda, til viðbótar við það sem ég sagði, að þáverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hélt ræðu á búnaðarþingi 1. mars sl. Þá lýsti hann því mjög afdráttarlaust yfir, sem var í fyrsta skipti, mér vitanlega, sem fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs töluðu með þeim hætti, að ekki yrði snúið til baka með þær skerðingar sem þegar hefðu verið ákveðnar með lögum og í fjárlögum. Hann bætti því jafnframt við að þessum skerðingum yrði í ljósi aðstæðna einnig haldið áfram á næsta ári, á árinu 2010. Það er í raun og veru innsiglað í því frumvarpi sem við ræðum hér. Það má því segja sem svo að hæstv. ráðherra hafi slegið tóninn í viðræðunum við Bændasamtökin, forustumenn bænda, og sagt eitthvað á þessa leið: Ég er ekki til viðræðna um aðra hluti en þá að viðhalda skerðingunum fyrir árið 2009 og að þær muni ganga áfram inn í árið 2010 og síðan er gert ráð fyrir því að þær haldi áfram með þeim hætti sem útlistað er í frumvarpinu þó að verið sé að draga úr þeim og málunum síðan komið í eðlilegt horf.

Ég rakti líka hér áðan að ég hefði átt þessar viðræður við forustumenn bænda og að þær viðræður hefðu allar verið á jákvæðum nótum. Ég gerði mér vonir um að þær hefðu leitt til jákvæðrar niðurstöðu enda segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, í viðtali við Bændablaðið 26. febrúar sl., og áréttaði það raunar líka í ræðu sinni við setningu búnaðarþings, með leyfi virðulegs forseta:

„Við höfum hreyft, við Einar Kristinn Guðfinnsson, þessum hugmyndum sem ég hef rakið hér“ — það eru þær hugmyndir sem ég gerði grein fyrir — „en það gafst ekki tími til að fara nánar yfir þær. Einar Kristinn hafði tekið jákvætt í þær á sínum tíma.“

Þetta var sem sagt í janúar en ríkisstjórnin, eins og menn muna, fór frá völdum 1. febrúar. Ég hafði sjálfur gert mér vonir um að hægt væri að ná þessu samkomulagi í tæka tíð þannig að hægt væri að leggja það fyrir búnaðarþing en auðvitað voru þær aðstæður uppi í okkar samfélagi, í okkar pólitík, að það reyndist ekki mögulegt, það er auðvitað í tengslum við stjórnarmyndun o.s.frv.

Virðulegi forseti. Það væri heilmikil freisting í sjálfu sér að lesa nú upp valda kafla úr ræðum hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem hann flutti þegar þessi mál komu til umfjöllunar Alþingis í desember. Ég ætla út af fyrir sig — enda hef ég ekki mikinn tíma til þess í ræðu minni hér — að stilla mig um það að mestu leyti. Ég verð þó að vekja athygli á nokkrum þáttum.

Það var ekki bara þannig að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gagnrýndu þetta á þeim forsendum að hér væri um að ræða einhliða aðgerð, það gerðu þeir sannarlega. En þeir gerðu þetta líka á efnislegum forsendum, sem sagt þeim að það væri einfaldlega ekki — burt séð frá því hvort um það væru samningar eða ekki við bændur — líðandi, ekki gerlegt, ekki sanngjarnt og ekki nokkrum bjóðandi að fara inn í búvörusamningana með þessum hætti. Það væri spurning um forgangsröðun í pólitík hvort menn vildu fara þessa leið eða einhverja aðra.

Hv. þm. Jón Bjarnason á þeim tíma, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nú, segir t.d. í ræðu 16. desember, með leyfi virðulegs forseta:

„Þessi samningur“ — þ.e. búvörusamningarnir — „sem gerður hefur verið við landbúnaðarframleiðendur miðar einmitt að því að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Það er hinn pólitíski vilji sem Alþingi og ríkisstjórn hefur farið með gagnvart þessum atvinnuvegi.“

Hann segir enn fremur, með leyfi virðulegs forseta:

„Okkur greinir hins vegar á í fyrsta lagi um forgangsröðun í þeim efnum. Það að ætla að ráðast að einum grunnþætti öryggis þjóðarinnar, sem er matvælaframleiðslan, er að minni hyggju mjög óskynsamlegt. Okkur ber einmitt nú að standa sem klettur að baki íslenskum landbúnaði, mjólkurframleiðslu, kjötframleiðslu og grænmetisframleiðslu, því að í þessa framleiðslu sækjum við styrk, byggjum upp innviði íslensks samfélags, sköpum atvinnu, öflugan matvælaiðnað og treystum fæðuöryggi þjóðarinnar.“ — Þetta er allt spaklega mælt. — „Jafnvel eru möguleikar á útflutningi á þessum góðu hágæðalandbúnaðarvörum í breyttu gengi. Að mínu mati er það röng forgangsröðun af hálfu ríkisstjórnarinnar að ráðast með þeim hætti að íslenskum landbúnaði eins og hér er verið að gera.“

Með þessu frumvarpi er hæstv. ráðherra greinilega að éta þetta allt saman ofan í sig. Hann er mjög lystugur því að hér er um mjög afdráttarlausar yfirlýsingar að ræða af hans hálfu sem ekki lúta eingöngu að forminu, ekki bara að því hvort semja ætti um þessar skerðingar við bændur heldur var hæstv. ráðherra á þessum tíma þeirrar skoðunar að um væri að ræða þannig gjörning að það væri mjög til baga fyrir landbúnaðinn og geri ég ekki lítið úr því.

Ég vil líka segja það að í þessari umræðu kom fram mjög athyglisvert sjónarmið — og talaði m.a. virðulegur forseti, sem hér situr, fyrir því, og vakti athygli á því að í frumvarpinu sem þá var verið að ræða um, sem fól í sér frumvarp til laga sem gáfu ríkisstjórninni heimild, og Alþingi gaf þá heimild, til að skerða búvörusamningana með þeim hætti sem ég hef gert grein fyrir — þá sagði hv. þingmaður og núverandi hæstv. forseti sem situr nú í forsetastóli, með leyfi forseta:

„Ég hvet hv. efnahags- og skattanefnd til að skoða þá leið sem ríkisstjórnin hefur hér fundið og nota hana, sé hún tæk, til að skera verðbólgukúfinn af húsnæðislánum í landinu. Það hefur verið kallað eftir því í samfélaginu að gripið verði til aðgerða til að skera af þann kúf sem verður núna vegna hækkandi vísitölutryggingar á húsnæðislánum. Menn hafa fullyrt í þessum stól að það yrði of dýrkeypt og það væri ekki hægt að gera. En ríkisstjórnin hefur hér komið fram með leið sem ætti að gagnast, ef hún á að geta gagnast gagnvart bændum hlýtur hún að geta gagnast gagnvart lánum þeirra líka, fyrst hún gerir það gagnvart launaliðnum.“

Undir þetta sjónarmið tóku síðan aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og nú finnst mér mjög mikilvægt að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra greini okkur frá því hvort þessi mál hafi ekki síðan komið til umræðu í ríkisstjórninni þegar þetta frumvarp var lagt fram. Þetta sjónarmið sem kom svona skýrt fram, var sem rauður þráður í efnislegum athugasemdum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þegar þeir voru að fara yfir þessi mál á sínum tíma — hvort þessar brilljant hugmyndir frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hafi örugglega ekki komið til tals við ríkisstjórnarborðið í tengslum við þá erfiðleika sem steðja að heimilunum í landinu. Þetta er umræða sem hefur raunar farið fram síðan, m.a. í tengslum við hugmyndir Framsóknarflokksins, en mér hefur heyrst að menn hafi séð á þessu ýmsa meinbugi, en ég trúi ekki öðru en að svona sterk skilaboð frá flokki hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, flokki hæstv. fjármálaráðherra, hafi komið til tals þegar verið var að ræða þetta tiltekna frumvarp í ríkisstjórninni áður en það var lagt fram.