137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[18:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að auðvitað er mjög gott að niðurstaða skuli vera komin í þetta mál. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan var verið að reyna að vinna í þessum dúr með samningaviðræðum milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á þeim tíma og hjá forustumönnum bænda rétt eins og formaður Bændasamtakanna hefur greint frá, bæði á búnaðarþingi og í blaðaviðtali sem ég vitnaði til hér áðan. Við erum því algjörlega sammála um það, og ég sagði það einmitt hér áðan, að efnislega hef ég ekkert við þetta frumvarp að athuga.

Ég var hins vegar að vekja athygli á því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á sér heilmikla forsögu í þessari umræðu. Sú forsaga lýtur ekki bara að því hvort hann hafi talið að þetta væri lögmætur eða ólögmætur gjörningur, vitað var að um það var efnislegur ágreiningur og það kom fram. Við höfðum af okkar hálfu látið fara ofan í þessi mál og komist að annarri niðurstöðu en hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra telur það nú vafasamt, við skulum láta það liggja á milli hluta.

Ég var hins vegar að vekja athygli á því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á sér pólitíska forsögu í þessu máli að því leytinu til að hann hélt uppi mjög harðri efnislegri gagnrýni á þessa ákvörðun, að fara inn í búvörusamningana, vegna þess að það væri ósanngjarnt gagnvart bændum sem væru mjög tekjulágur hópur, sem er út af fyrir sig algjörlega rétt. Ég er að vekja athygli á því að með frumvarpinu er hæstv. ráðherra í raun að éta ofan í sig stóru orðin. Hann er að viðurkenna þær aðstæður sem við stóðum frammi fyrir í haust og stöndum frammi fyrir núna því að það hefur út af fyrir sig ekkert breyst. Bankakerfið var hrunið í haust, tekjusamdráttur ríkisins var fyrirsjáanlegur, hrun var fyrirsjáanlegt í þjóðarframleiðslunni og þess vegna urðum við að grípa til þess óyndisúrræðis að fara inn í búvörusamningana. Það voru sömu efnislegu ástæður og aðstæður og þær sem hæstv. ráðherra er núna að gera grein fyrir.