137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[18:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð bara að segja það hér að mér finnst hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson óvenjubrattur. Í staðinn fyrir að koma hér, sem ég hefði talið að hv. þingmaður hefði átt að gera, og biðjast afsökunar á því að hafa beitt sér fyrir þessum lagasetningum á haustdögum, sem var brot á samningum og trúlega eins og okkur hefur verið kynnt fullkomið lögbrot — það er tvennt ólíkt að framkvæma með einhliða gjörningi lögbrot og brjóta samninga eins og þá var gert ellegar að leita samninga við bændur og Bændasamtökin um þetta mál. Annars vegar að semja hugsanlega málssókn út af borðinu, sem vofði yfir, og svo hins vegar líka að ná sátt um framhaldið hvað varðar þessar skerðingar, sem vissulega eru sárar og ég gagnrýni það að þær skuli þurfa að gera. En á móti er samningurinn framlengdur um tvö ár og þannig er staða íslensks landbúnaðar treyst í tvö ár til viðbótar. Ég tel það mjög mikilvægt, ekki síst við þær aðstæður sem núna eru.

Frú forseti. Ég mundi leggja til við hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson að biðjast nú afsökunar á því að þessi lög hafi verið sett í haust en síðan, eins og hann hefur réttilega lýst yfir, fagna því og standa að greiðri afgreiðslu þessa frumvarps í nefnd. Það er verið að draga þennan gjörning að landi og treysta samninginn við bændur um tvö ár í viðbót eða til 2014.