137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[18:44]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem hæstv. landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, mælti fyrir. Ég vil byrja á að óska hæstv. landbúnaðarráðherra til hamingju með þetta fyrsta landbúnaðartengda frumvarp. Það mál sem hér er rætt er mjög brýnt þrátt fyrir að skemmtilegra hefði verið að ræða mörg önnur mál en þetta núna.

Ef við skautum í grófum dráttum yfir frumvarpið eins og það liggur hér fyrir þá snýst það fyrst og fremst um það að í tíð hæstv. ráðherra Einars K. Guðfinnssonar, þegar hann var landbúnaðarráðherra, fór hann einhliða fram og afnam verðtryggingu af búvörusamningum. Það er staðreynd. Þetta var náttúrlega gríðarlega þungt fyrir landbúnaðinn og þungt fyrir bændur og í framhaldinu skapaðist ákveðin réttaróvissa sem rakin er í athugasemdum við lagafrumvarpið. Bændasamtök Íslands unnu lögfræðiálit sem sýndi fram á þetta og það er staðreynd að þetta var gert í tíð Einars K. Guðfinnssonar. Á sama tíma hefði að sjálfsögðu verið eðlilegast að eitthvað þessu líkt hefði legið fyrir.

Það er svo að ráðherratíðar hæstv. landbúnaðarráðherra, sem þá var Einar K. Guðfinnsson, verður líklega minnst í sögunni. Þau tvö mál sem hann lagði til er vörðuðu landbúnað voru annars vegar þetta mál og innflutningur á hráu kjöti hins vegar. Þessa munu bændur minnast í sögulegu samhengi og það er náttúrlega fagnaðarefni að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson skuli ætla að aðstoða Vinstri græna við að moka þann flór sem hann sjálfur fyllti. Við væntum þess í nefndinni að eiga gott samstarf við hann hvað það varðar að ná þessu máli í gegn og ég hygg að ekki verði nein andstaða við þetta.

Það er annað sem mig langar að koma inn á í frumvarpinu, en það hefur ekki verið til umræðu hér, þetta hefur meira verið eins og hanaslagur, þar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur verið með einhvern iðrunar- og yfirbótamálflutning. Það varðar sauðfjárræktina, þar sem komið er til móts við bændur vegna niðurskurðar á riðu og ákveðið að greiða gæðastýringarálag á lömb sem keypt eru vegna riðuniðurskurðar. Ég held að það sé mjög heppilegt, og sýnir félagslega samstöðu bænda sem er mjög mikilvæg, að ríkisvaldið komi að þessu með þessum hætti. Það er gríðarlega þungt fyrir marga. Það er í fyrsta lagi þungt fyrir bændur sem lenda í því að skorið er niður vegna riðu hjá þeim og annars vegar er það kostnaðurinn sem af þessu hlýst. En ég held að þetta sé mjög heppilegt.

Varðandi mjólkurframleiðsluna segir í fskj.II, sem fylgir frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Samningsaðilar eru sammála um að beita sér fyrir könnun á skuldastöðu sauðfjárbænda í samvinnu við viðskiptabanka í þeim tilgangi að leita lausna til að bæta stöðu greinarinnar í þeim fjármálaþrengingum sem þjóðin býr nú við.“

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og eitt af því sem hæstv. landbúnaðarráðherra og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þurfi að leggjast yfir. Mörg kúabú og mörg bú hafa raunar staðið í miklum framkvæmdum og eru skuldsett en öll gegna þau gríðarlega mikilvægu hlutverki, bæði hvað varðar matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar og ekki hvað síst í byggðalegu tilliti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að setjast yfir þetta og finna einhverjar raunhæfar leiðir og raunhæfar lausnir í þessum efnum.

Frumvarpið felur í sér þessa lengingu. Það er sem sagt sátt á milli þessara tveggja aðila og því ber að fagna þar sem á móti kemur að búvörusamningarnir eru lengdir um tvö ár. Því ber að fagna að hæstv. landbúnaðarráðherra og forsvarsmenn bænda hafi náð sátt um þetta mál því að ekki var mikil sátt um það þegar frumvarpið var lagt fram á sínum tíma eins og komið hefur fram í umræðunni. Það er annað sem ekki er komið inn á þarna en það eru garðyrkjubændur. Það er mikilvægt að sú vinna fari strax í gang að ná sátt við garðyrkjubændur um að styrkja stöðu þeirra. Ég hygg að sú vinna sé hafin og vænti þess að við munum sjá niðurstöðu í þeim efnum.

Það er fagnaðarefni að náðst skuli hafa sátt í þessu máli sem hæstv. fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Einar K. Guðfinnsson, hleypti úr vör og er annarra að draga þann bát að landi.