137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

35. mál
[19:02]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka þessa umræðu um þetta mál. Fyrir mér er þetta ekkert smámál. Fyrir mér er á vissan hátt verið að ganga frá kjarasamningi við stóra og mikilvæga stétt í þjóðfélaginu sem eru bændur. Það er verið að semja um umgjörð þessarar atvinnugreinar til 2014 eða 2015. Fyrir mér er það stórmál. Bændur eru með sínum hætti að axla ábyrgð og leggja sitt af mörkum til vissrar þjóðarsáttar. Þeir taka á sig skerðingu, það er alveg hárrétt, og það er ekkert fagnaðarefni. Engu að síður er samt, með þessum tvíhliða samningi, verið að tryggja þessari atvinnugrein umgjörð.

Ég vona að sá samningur og sáttagjörð sem hér er geti líka verið gott fordæmi fyrir aðra, ekki síst með vinnubrögð, og einnig að aðilar geri sér grein fyrir þeirri stöðu sem er og að tryggja þurfi þessa umgjörð. Bændur hafa alltaf, þar sem ég þekki til, og ég hef alllengi þekkt til, verið reiðubúnir til samninga á sanngjörnum nótum. Þeir hafa haldið fast á sínu sem eðlilegt er, en alltaf verið reiðubúnir til að semja um sín mál og það tel ég einmitt að hafi gerst hér.

Að öðru leyti er litlu við að bæta í þessa umræðu. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson spurðist fyrir um gæðastýringarálag á líflömbum. Þannig hefur það verið að þegar lagt er inn í sláturhús kemur gæðastýringarálag á innlagt kjöt, en hins vegar hefur það ekki komið með sama hætti ef það er selt sem líflömb og þannig er verið að jafna það. Þetta er í sjálfu sér ekki greitt af þeim sem kaupa líflömbin heldur verður þetta hluti af búvörusamningnum sem slíkum. Þarna er einungis verið að jafna stöðu þeirra bænda sem annars vegar selja líflömb og þeirra sem hins vegar hefðu lagt þau inn í sláturhús. Þetta er ekkert stórmál, þetta er frekar jafnréttismál innan bændastéttarinnar sjálfrar.

Þó að við höfum hér skipst á nokkuð snörpum orðum, ég og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, varðandi fordæmi í þessu máli var ég líka mjög ánægður að heyra að hann lýsti stuðningi við framgang þessa máls hér í þinginu. Ég var líka ánægður að heyra að hv. þingmaður sagði að í sjálfu sér væri vel að verki staðið af beggja hálfu, bæði Bændasamtakanna og ríkisins. Við skulum vona að þessi samningur nái fram að ganga. Ég vonast til þess að bændur greiði honum atkvæði sitt og að Alþingi staðfesti það frá sinni hlið. Ég vonast til að þetta verði til að skapa þessum atvinnugreinum þá traustu umgjörð sem við mögulega getum, en vissulega eru bændur þarna að taka á sig skerðingu.