137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

umræða um stöðu heimilanna.

[13:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vakti athygli á. Við söknum þess einnig, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, að þessi umræða um hag heimilanna skuli ekki fara fram í dag. Ég tek eindregið undir þau orð hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar að það er auðvitað forgangsmál á þessu þingi að ræða um hagsmuni heimilanna við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu. Það er mikilvægt að fram komi einhverjar skýringar á því af hverju sú ákvörðun var tekin að slá af þær utandagskrárumræður sem fyrirhugað var að hafa í þessari viku. Ég bendi á að þrátt fyrir að ráðherrar gegni mikilvægum skyldum á öðrum vettvangi hafa þeir einnig mikilvægar skyldur gagnvart þinginu.