137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

umræða um stöðu heimilanna.

[13:36]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að á fundum formanna þingflokka með forseta var rætt fyrir nokkru að tilteknar umræður færu fram á tilteknum dögum. Fremst í forgangi var umræðan sem var í fyrradag, um stöðu efnahagsmála.

Hæstv. forsætisráðherra var þann dag í þinginu og svaraði fjórum óundirbúnum fyrirspurnum. Síðan var ágæt umræða í tæpa tvo klukkutíma um stöðu efnahagsmála. Í dag getur hæstv. forsætisráðherra ekki komið hingað einfaldlega af því að nú stendur yfir stíf fundalota með þeim sem kallast yfirleitt aðilar vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmálann. Þeim umræðum er að ljúka. Þeim hefur miðað vel og stóðu langt fram á gærkvöldið og standa í allan dag. Þess vegna gat forsætisráðherra ekki verið við þessa umræðu í dag og eins og allir vita færast oft á milli daga umræður utan dagskrár um einstök málefni þótt þau séu gríðarlega brýn. Enginn efast um það, allra síst forsætisráðherra sem er viðstödd hverja umræðu sem beðið er um þegar tími er til. Sú umræða fer því fram um leið og forsætisráðherra getur verið viðstödd.