137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

umræða um stöðu heimilanna.

[13:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem kom fram hjá þingflokksformönnum sem talað hafa að það skiptir afskaplega miklu máli að gefnar séu greinargóðar upplýsingar um breytingar eins og hér er um að ræða. Hv. þingmaður og þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, segir okkur að forsætisráðherra sé mjög upptekin við að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að því að ná sáttum um þær breytingar sem eru fram undan og nauðsynlegar eru. Ég tel að það sé afskaplega mikilvægt. Ég bið fyrir kveðjur og vonast til þess að menn nái góðri lendingu, það er afskaplega mikilvægt. Hins vegar verðum við að ræða um málefni heimilanna og ég treysti því að það gerist sem allra fyrst.