137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

umræða um stöðu heimilanna.

[13:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir taka undir þessa umræðu og þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir þessar skýringar. Ég fagna því að hæstv. ríkisstjórn sé önnum kafin við að reyna að ná samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmála sem mun án efa koma heimilunum og fyrirtækjunum að gagni. Það er það sem þessi utandagskrárumræða átti að fjalla um. En ég vil spyrja í þessu samhengi hvort það liggi fyrir hvenær áætlað sé að kynna það fyrir hv. Alþingi, ekki síst fyrir stjórnarandstöðunni, vegna þess að í anda góðs samráðs og samvinnu sem mikið er rætt um, ekki síst á tyllidögum, er talað um að vinna þetta allt í sameiningu. Ég fagna því að verið sé að vinna með aðilum vinnumarkaðarins en ég sakna þess óneitanlega að ekki skuli haft samráð á Alþingi og þá ekki síst við stjórnarandstöðuna.