137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

niðurgreiðsla á rafmagni til húshitunar.

25. mál
[13:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra um stöðu þeirra heimila sem búa á svokölluðum kvöldum svæðum og þurfa að kynda íbúðarhúsnæði sitt með rafmagni. Það er ánægjulegt að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hér um leið og ég óska henni alls velfarnaðar í sínum störfum því að ég held að hæstv. ráðherra komi í fyrsta sinn upp í pontu Alþingis á eftir sem ráðherra.

Það er mikið búið að ræða um að jafna stöðu heimilanna í landinu. Það er ljóst að fólk sem býr á köldum svæðum, þ.e. hefur ekki aðgang að þeirri auðlind sem heita vatnið okkar er, borgar mun hærri reikninga vegna húshitunarkostnaðar en aðrir landsmenn sem hafa aðgengi að þeirri auðlind. Við höfum á undanförnum árum á vettvangi Alþingis reynt að leita lausna til að mælta vanda þessara heimila með því að setja fjármuni til þess að lækka rafmagnsreikninga þeirra heimila sem ekki búa að heitavatnsauðlindinni.

Hins vegar ber svo við á milli áranna 2008 og 2009 að framlög til þessara heimila hafa dregist verulega saman að raungildi þannig að búast má við því að þau heimili sem ekki hafa aðgengi að heitu vatni til húshitunar þurfi að borga hærri reikninga til að kynda upp íbúðarhúsnæði sitt en ella. Í ljósi hástemmdra yfirlýsinga m.a. núverandi hæstv. landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, um lækkun á orkuverði, hljótum við að spyrja á þessu sumarþingi hvort hæstv. ríkisstjórn með hæstv. iðnaðarráðherra í broddi fylkingar hyggst jafna þennan aðstöðumun, þ.e. leiðrétta þann mun sem felst í því að búa á köldu svæði og heitu með því að auka framlög til þeirra heimila sem þurfa að kynda húsnæði sitt annaðhvort með olíu eða rafmagni. Við erum að tala um að jafna búsetuskilyrðin í landinu. Ég sé að hæstv. landbúnaðarráðherra gengur hjá og ég efast ekki um að hann muni taka þátt í þessari umræðu svo dyggur talsmaður sem hann hefur verið, sérstaklega á síðustu vikum, fyrir því að lækka rafmagnskostnað á landsbyggðinni. Ég treysti á að hæstv. ráðherra muni koma og reifa sjónarmið sín í þessari umræðu um hvað ríkisstjórnin ætlar sér að gera í þessum efnum. Mér er sönn ánægja að beina þessari fyrirspurn til hæstv. ráðherra sem ég óska enn og aftur velgengni og ég veit að hún mun reyna sitt besta til að jafna þau ólíku búsetuskilyrði sem fyrir hendi eru í landinu.