137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

niðurgreiðsla á rafmagni til húshitunar.

25. mál
[13:44]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða fyrirspurn og sömuleiðis góða kveðju en þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem ég stíg í pontu sem ráðherra vegna þess að ég tók þátt í umræðum um stefnu forsætisráðherra og ég vona að hv. þingmaður hafi ekki misst af þeirri ræðu. (BJJ: Ég fór í myndatöku.)

Virðulegi forseti. Enn og aftur þakka ég fyrir þessa fyrirspurn vegna þess að hér er um mikilvægt mál að ræða sem við ræddum töluvert á síðasta þingi. Það eru 9% heimila sem fá niðurgreiðslu á hitun á húsnæði eins og fram hefur komið á þessu þingi.

Í fyrra fóru um 938 millj. í beinar niðurgreiðslur en árlega er verið að niðurgreiða um það bil 350 millj. kílóvattstundir. Fjárlagaliðurinn er þó hærri en þessar 938 millj. en upphæðin hefur verið á bilinu 930–950 millj. og er ætlað að mæta útgjöldum vegna niðurgreiðslna, stofnstyrkja til hitaveitna, hitaleitarátaks, orkusparnaðaraðgerða, eftirlitskostnaðar Orkustofnunar og tveggja tímabundinna verkefna.

Eins og fram hefur komið ræddum við þessi mál töluvert á síðasta þingi. Ástæðan var sú að gerðar voru breytingar á skiptingu innan þessara fjárlagaliða þannig að settir hafa verið meiri fjármunir til orkusparandi aðgerða. Það skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að þeim er ætlað að draga úr kostnaði vegna húshitunar úti um landið á köldum svæðum.

Það verður líka að horfa til þess að niðurgreiðslur eru ekki eina leiðin til að draga úr húshitunarkostnaði þeirra sem búa á kvöldum svæðum og hefur þess vegna á undanförnum árum mikil áhersla verið lögð á að stuðla að uppbyggingu hitaveitna víðs vegar um landið. Í tengslum við mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í fyrra vegna þorskaflasamdráttar úthlutaði Orkusjóður samtals 172 millj. til jarðhitaleitar á 29 stöðum þar sem ekki nýtur hitaveitu. Ef mótframlag styrkumsækjenda er tekið með stefnir í að um 300 millj. kr. hafi verið varið í jarðhitaleit á síðustu tveimur árum. Þá hefur ríkissjóður jafnframt styrkt uppbyggingu nýrra hitaveitna og stækkunar starfandi hitaveitna með það fyrir augum að draga úr húshitunarkostnaði á köldum svæðum.

Eins og ég sagði áðan voru á síðasta þingi samþykktar breytingar á lögum um niðurgreiðslu sem gerði mögulegt að verja auknum fjármunum í orkusparnaðaraðgerðir. Breytingunum er ætlað að draga úr húshitunarkostnaði íbúa á köldum svæðum, draga úr kostnaði ríkissjóðs til lengri tíma litið við að niðurgreiða húshitunarkostnað og að hvetja til atvinnuskapandi verkefna. Á grundvelli þessara breytinga verða auglýstir styrkir til að ráðast í endurbætur á húsnæði og orkuöflun sem leiða til lægri húshitunarkostnaðar, svo sem varmadælur sem hafa reynst mjög vel t.d. á Akureyri þar sem hv. þingmaður þekkir vel til. Og orkusetrið sem þar starfar hefur unnið mjög ötullega að þessum málum.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að gerð verði áætlun um orkusparnað jafnt fyrir atvinnufyrirtæki og heimili vegna þess að ljóst er að núverandi niðurgreiðslukerfi skortir hvata til orkusparnaðar en þeir sérstöku styrkir sem nú hafa verið ákveðnir geta skilað fjárhagslegum ávinningi bæði fyrir húseigendur og ríkissjóð til lengri tíma. Samstarfsyfirlýsing þessarar ríkisstjórnar gerir ráð fyrir því að áfram verði unnið á þessum nótum en í henni er kveðið á um að gerð verði áætlun um orkusparnað fyrir atvinnufyrirtæki og heimili en undirbúningur slíkrar áætlunar er þegar hafinn. Kemur það þá til viðbótar þeirri stefnumörkun sem gerð var með breytingunum á lögunum á síðasta þingi. Á það leggjum við mikla áherslu og við væntum mjög mikils af orkusparnaðaraðgerðum og þeirri vinnu sem fram fer í tengslum við þær t.d. á Orkusetrinu á Akureyri.

Hv. þingmaður nefndi að niðurgreiðslur til húshitunarkostnaðar hefðu dregist saman að raungildi en það er ekki svo einfalt. Staðreyndin er sú að vissulega hefur heildarkrónutalan af fjárlagaliðnum staðið í stað frá árinu 2005, að mig minnir. En á móti kemur að jarðhitaleitarátak og fleiri aðgerðir hafa skilað sér þannig að þeim heimilum og íbúum hefur fækkað sem fengið hafa niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði. Þetta er því ekki alveg eins einfalt og hv. þingmaður segir.