137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

niðurgreiðsla á rafmagni til húshitunar.

25. mál
[13:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Þetta er málefni sem við eigum, óháð stjórnmálaflokkum, að geta sammælst um, þ.e. að jafna búsetuskilyrðin í landinu. Það er því eðlilegt að við vekjum athygli á því að þeir fjármunir sem við höfum ætlað að setja í að jafna búsetuna skuli vera að dragast saman eins og hæstv. ráðherra benti hér á.

Við erum reyndar að ná árangri í jarðhitaleit og ég dreg ekkert undan í þeim efnum. Ég hef hins vegar heyrt frá fólki, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum, sem kvartar yfir því að rafmagnsreikningur heimilanna hafi farið mjög hækkandi að undanförnu. Það er áhyggjuefni vegna þess að á þessum sömu heimilum eru tekjurnar að dragast saman. Ef við viljum halda byggð í landinu öllu, og eins og svo margir þingmenn hafa sagt hér, ef við viljum jafna búsetuskilyrðin í landinu, hlýtur það að vera akkur okkar allra, sama hvar í flokki við stöndum, að standa vörð um það að þessir reikningar heimilanna verði ekki það svimandi háir að við stefnum búsetu á heilu landsvæðunum í hættu.

Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þeim efnum að beita sér fyrir því að jafna þennan aðstöðumun frekar. Ég sakna þess að hæstv. landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, skyldi ekki hafa mátt vera að því að ræða um þetta brýna mál hér í eina mínútu. Ég trúi því ekki að hann hafi skipt um skoðun á einungis nokkrum vikum eftir að vera kominn í ríkisstjórn. Hann hét kjósendum sínum því, í aðdraganda síðustu kosninga, að lækka rafmagnsreikninga landsmanna og þá sérstaklega í dreifbýli.