137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Atvinnuleysistryggingasjóður.

27. mál
[14:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Hér er talað um mjög alvarlega hluti, atvinnuleysið í landinu og stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Mér fannst það sláandi og eftirtektarvert og tilefni til sérstakrar umhugsunar að sá tæplega 21 milljarður króna sem safnast hefur upp á liðnum árum í Atvinnuleysistryggingasjóð eða ætlað er að hafi safnast í hann í ár verði uppurinn um mánaðamótin október/nóvember á þessu ári. Hvað svo? Þá þarf væntanlega að taka peningana úr ríkissjóði. Mér fannst það sérstakt og kannski ágætt að undir lok ræðu sinnar viðurkenndi hæstv. trygginga- og félagsmálaráðherra hvað sá vandi sem uppi er mundi þýða ef við héldum áfram að óbreyttu, þ.e. að fólk færi úr landi í stórum stíl og fyrirtæki og heimili legðu upp laupana. Því spyr ég: Er ríkisstjórnin ekki farin að huga alvarlega að því að vinna að einhverri góðri og gildri peningastefnu, efnahagsstefnu sem virkilega gæti talið kjark í heimilin, fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu?