137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Atvinnuleysistryggingasjóður.

27. mál
[14:09]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í ljósi þess að fyrirsjáanlegt er að í nóvember og desember þurfum við að verja rúmum 4 milljörðum af fjárlögum til framlaga í Atvinnuleysistryggingasjóð: Stendur ekki örugglega til hjá hæstv. ríkisstjórn að fá til þess heimild frá Alþingi Íslendinga sem fer með fjárveitingavaldið, a.m.k. enn þá, og liggur ekki fyrir að hæstv. ríkisstjórn muni í ljósi þess að forsendur fjárlaga eru brostnar leggja fram fjáraukalagafrumvarp á yfirstandandi þingi þannig að Alþingi geti lagt blessun sína yfir slíkar gjörðir eða lítur hæstv. ráðherra þannig á að framkvæmdarvaldið geti eitt búið til ný fjárlög í ljósi þess að allar forsendur eru breyttar?

Það blasir líka við að á næsta ári þarf ríkissjóður trúlega að greiða 20 milljarða kr. til Atvinnuleysistryggingasjóðs, nokkuð sem ríkissjóður hefur ekki þurft að gera á mörgum undangengnum árum. Það stefnir því í það að öllu óbreyttu að rekstur og staða ríkissjóðs, eins og menn hafa mörgum sinnum bent á, verður gríðarlega erfið verði ekki ráðist í einhverjar róttækar aðgerðir til að snúa þessari óheillaþróun við. Ég er sammála hæstv. ráðherra að við eigum á vettvangi þingsins að telja kjark í fyrirtækin en til þess þurfum við að koma fram með einhverjar aðgerðir til að vekja væntingar hjá atvinnulífinu í landinu um að fram undan séu bjartari tímar og þá þurfum við að leggja fram einhverja tillögu um það hvernig við ætlum að bæta stöðu atvinnulífsins og fjölga störfum í samfélaginu að nýju. Því miður sýnist mér afskaplega fátt benda til þess að ríkisstjórnin ætli að koma með eitthvað markvert á sumarþinginu, sumarþingi sem ætti að vera að vinna dag og nótt í því að móta tillögur og hugmyndir um það hvernig við getum snúið þessari grafalvarlegu stöðu við. Við framsóknarmenn heitum á hæstv. ráðherra að koma í lið með okkur í þeim efnum að ráðast í róttækar tillögur til að fara að gera eitthvað af viti.