137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Atvinnuleysistryggingasjóður.

27. mál
[14:11]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt að það er mikilvægt að grípa til aðgerða til að greiða fyrir því að fyrirtæki geti ráðið fólk og menn mega ekki að skilja orð mín þannig að ég sé að átelja fyrirtæki fyrir að ráða ekki til sín fólk. Staðreyndin er einfaldlega sú að sá ótti og óvissa sem eðli málsins samkvæmt hefur fylgt þessu hruni hefur auðvitað valdið því að fyrirtæki halda að sér höndum. Það á hins vegar ekki að vera með svartnættisraus gagnvart fyrirtækjunum heldur að reyna að vinna með atvinnulífinu í því að leggja grunn að efnahagslegum stöðugleika og framförum og það er ríkisstjórnin að gera núna. (Gripið fram í.) Við ætlum að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að því að leggja grunn undir stöðugleikasamninga sem eiga að tryggja almenningi í landinu bestu mögulegu skilyrði til að halda í þann kaupmátt sem fengist hefur, tryggja fyrirtækjunum vaxtarskilyrði og vísa veginn fram á við. Á þessu sumarþingi verður jafnframt kynnt áætlun um forgangsröðun í ríkisfjármálum til næstu ára. Þetta liggur allt saman fyrir.

Það sem skiptir höfuðmáli er að fara vel með takmarkað fé, að fara af ráðdeild með opinbert fé. Það er auðvitað svo að það er ekki í endalausa sjóði að ganga og við þurfum að taka fé að láni til að standa skil á þeim skuldbindingum sem við nauðsynlega þurfum að standa skil á gagnvart atvinnulausu fólki eftir að sjóðurinn tæmist.

Varðandi bótasvikin sem hér voru nefnd tel ég auðvitað mikilvægt að við ræðum það í fullri hreinskilni að mjög mikilvægt er að við tryggjum að þeir sem eru á atvinnuleysisbótum og njóti þeirra séu ekki jafnframt í vinnu. Við þurfum að tryggja samfélagslega samstöðu um að veita mikið fé í þetta verkefni og þá er mjög mikilvægt að það sé tryggt að þeir sem raunverulega þurfa á að halda fái fyrirgreiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði en ekki aðrir og að því munum við vinna.