137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

séreignarlífeyrissparnaður.

28. mál
[14:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er tiltölulega einfalt að svara þessum spurningum hv. þingmanns enda eru þær einfaldar og skýrar. Staðan var sú að þann 25. maí sl. höfðu 27.529 einstaklingar sótt um útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar samkvæmt þeim heimildum sem stofnað var til fyrr á árinu og þessar útgreiðslur munu nema samtals ríflega 17 milljörðum kr. Þetta er byggt á gögnum sem ganga til ríkisskattstjóra frá lífeyrissjóðunum eða vörsluaðilunum og eiga að vera nokkuð nákvæmar upplýsingar enda kerfið komið í jafnvægi ef svo má segja. Það bar á því í byrjun að lífeyrissjóðirnir önnuðu því ekki alveg að taka á móti umsóknum, vinna úr þeim og senda áfram til ríkisskattstjóra en eftir því sem ég best veit þá er þetta staðan nokkuð nákvæmlega eins og hún var fyrir tveimur dögum.

Hvað má ætla að tekjur ríkissjóðs aukist með hliðsjón af þessu? Það er tiltölulega einfaldur útreikningur. Það má þá ætla að tekjuauki ríkissjóðs verði um 4,1 milljarður kr. vegna þessarar útgreiðslu á séreignarlífeyrissparnaði eða 24,1% af heildarfjárhæð þess séreignarsparnaðar sem ætla má að þegar hafi verið stofnað til að verði greiddur út. Þessar tekjur falla að vísu ekki allar til á þessu ári en útgreiðslurnar hófust í apríl og þær eru vaxandi í maí og munu fara vaxandi í júní þannig að einhver lítill hluti þessara tekna mun lenda inn á árinu 2010 en langstærstur hluti upphæðarinnar mun falla til sem tekjuauki á þessu ári. Því fylgir að sjálfsögðu að sveitarfélögin fá umtalsverðan tekjuauka í formi útsvars og með sama einfalda útreikningum má ætla að u.þ.b. 2 milljarðar kr., eða um þriðjungur, renni til sveitarfélaganna af heildarskatttekjum upp á rúma 6 milljarða sem þarna koma til ríkis og sveitarfélaga.

Tekin var um það ákvörðun að ráðstafa stærstum hluta áætlaðs tekjuauka, sem þá var talið að gæti kannski orðið um 3 milljarðar kr. á árinu, í hækkun vaxtabóta. Áætlað var að sú hækkun mundi verða eitthvað yfir 2 milljarðar. Það er þó háð þeirri óvissu að það liggur ekki fyrir fyrr en álagning hefur farið fram í sumar og flest bendir til að útgjaldaaukinn vegna hækkunar vaxtabóta verði frekar meiri en minni og þá væntanlega fyrst og fremst vegna þess að tekju- og eignarskerðingarákvæðin munu síður draga vaxtabæturnar niður en áætla mætti við eðlilegar aðstæður. Það er því líklegt að eitthvað hærri fjárhæð gangi til útgreiðslu vaxtabóta síðsumars og er það auðvitað vel vegna þess að það var einn megintilgangur þessarar aðgerðar að afla tekna til stórhækkunar vaxtabóta.

Ég held að aðgerðin í það heila tekið hafi heppnast vel og að ekki hafi orðið mikil vandkvæði við framkvæmdina enda var þetta yfirvegað og varlega í þetta farið og með það að leiðarljósi að lífeyrissjóðirnir eða vörsluaðilar sjóðanna réðu við útgreiðslurnar án vandkvæða. Að því er ég best veit hefur það gerst með e.t.v. einhverjum frávikum, kannski aðallega í einu tilviki eða svo. Þetta er staða málsins og liggur það þá vonandi skýrt fyrir.