137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

séreignarlífeyrissparnaður.

28. mál
[14:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Mér fannst það þó kyndugt að lesa svörin, eða alla vega eitthvað af þeim, í fjölmiðlum í gær, ég held á mbl.is. Það er svo sem í takt við margt annað hér að við lesum í fjölmiðlum um það sem við jafnvel óskum eftir að fá upplýsingar um á vettvangi þingsins. En þessi svör frá hæstv. ráðherra voru mjög skýr og það er einmitt fyrirkomulag þessara funda sem eru á miðvikudögum að kalla eftir upplýsingum sem þessum, hvort áætlanir hafi staðið. Það er náttúrlega fagnaðarefni að sveitarfélögin í landinu skuli m.a. fá tekjur út af þessari breytingu sem við lögðumst öll á eitt um þvert á flokka að koma í gegn á síðasta þingi.

En það er vissulega líka grátlegt að fólk þurfi, í ljósi þess ástands sem blasir við okkur, að leita til þessara sjóða sem það hefur lagt í og ætlað að eiga á efri árum, að ástandið í samfélaginu skuli vera með þeim hætti að fólk þurfi, 27.529 einstaklingar, að leita í þessa sjóði sem segir okkur það að ástandið í samfélaginu er mjög erfitt og við viðurkennum það öll. Það er kannski í ljósi þess og í ljósi breyttra forsendna sem mig langar í seinni ræðu minni að spyrja hæstv. fjármálaráðherra — og ég hef reyndar lagt fram fyrirspurn sem verður væntanlega svarað eftir viku — hvort það standi ekki alveg örugglega til af hálfu hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar að leggja fram fjáraukalagafrumvarp á þessu þingi sem við þingmenn getum farið yfir á vettvangi fjárlaganefndar og efnahags- og skattanefndar því að það eru fjárheimildirnar sem koma frá Alþingi sem framkvæmdarvaldið útdeilir síðan. Það er alveg ljóst að gera varð verulegar breytingar á fjárlagafrumvarpi yfirstandandi árs og ég spyr ráðherrann að því hvort ekki standi örugglega til að Alþingi Íslendinga taki ákvörðun um það hvernig að slíkum málum verður staðið.