137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

séreignarlífeyrissparnaður.

28. mál
[14:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér telst til að ég hafi fengið fimm nýjar spurningar þannig að ég verð að nota tímann vel. Það er rétt, þessi upphæð er 17 milljarðar enn sem komið er en hún mun ekki lækka heldur frekar hækka því að væntanlega eiga einhverjir enn eftir að bera sig eftir þessum úrræðum en þá mun meiri hluti tekna eftir því sem líður á árið færast yfir á næsta ár.

Við munum fylgjast vel með þessari framkvæmd og höfum gert og þá svara ég hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að ekkert hefur verið útilokað í þeim efnum að rýmka þessar reglur. Þá er sú hugmynd sérstaklega til skoðunar, ef það verður viðráðanlegt af hálfu lífeyrissjóðanna, að opna fyrir færslu einhverra hærri upphæða úr séreignarsparnaðinum yfir í fasteignaveðlán til að greiða þau niður. Mig rekur ekki minni til þess að í stjórnarfrumvörpum hafi verið vísað í tekjur af þessu nema í þessu eina tilviki, ég man ekki eftir því. (REÁ: Það kom oft fram í umræðunum.) Já, það kom kannski fram í umræðum að þarna kynnu að verða einhverjir fjármunir til ráðstöfunar en ég minnist þess ekki að hafa samþykkt að vísað yrði í þessar áætluðu tekjur nema í þessu eina tilviki, að þær ættu í aðalatriðum að standa straum af hækkun vaxtabóta.

Er búið að ráðstafa því sem þarna kann að verða umfram? Svarið er nei. Ég tek undir með hv. þingmanni: Það liggur langbeinast við að það gangi til að minnka annars aukinn halla á fjárlögum þessa árs og þarf auðvitað miklu meira til. Eins og komið hefur fram í umræðum undanfarna daga stefnir að óbreyttu í kannski um 20 milljarða viðbótarhalla á ríkissjóði ef ekkert verður að gert. En það verður reyndar eitthvað að gert.

Þá kem ég að spurningu hv. fyrirspyrjanda. Að sjálfsögðu munu þessi mál koma fyrir Alþingi. Hvort það verður í formi hefðbundins fjáraukalagafrumvarps eða í formi frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum á tekju- og gjaldahlið, og formlegt fjáraukalagafrumvarp látið bíða haustsins, er kannski ekki alveg endanlegt, það er útfærsluatriði og verður skoðað.

Að lokum vil ég fullvissa hv. þingmann um að upplýsingar í fjölmiðlum í gær um þá hluti sem við ræðum hér eru ekki frá mér komnar. Ég legg það ekki í vana minn að svara fyrirspurnum á Alþingi fyrst í fjölmiðlum.