137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

framtíðarskipan Hólaskóla.

9. mál
[14:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessar spurningar og svör hæstv. ráðherra. Ég vil leggja áherslu á að báðir landbúnaðarháskólarnir, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Hólaskóli, gegna mjög mikilvægu hlutverki, ekki bara í menntun heldur líka í byggðarlegu og samfélagslegu tilliti.

Þetta er stór vinnustaður í Skagafirði og það nám sem þar er boðið upp á, ferðaþjónusta, fiskeldi og hrossarækt, er mjög mikilvægt bæði fyrir samfélagið og fyrir landið í heild sinni.

Það er mikilvægt þegar ráðist verður í þessar framkvæmdir að það sé gert í fullri sátt, ekki bara við skólann heldur líka samfélagið í Skagafirði. Ég legg höfuðáherslu á að það verði gert. Ég hygg að skýrsla sem nýverið kom út um háskóla fari fyrir menntamálanefnd og hljóti þar umfjöllun. Í þeirri skýrslu hygg ég að sé margt gott en líka eitthvað sem öðruvísi mætti vera. Þetta þarf að skoða í fullri sátt við samfélagið, við nemendurna og við alla þá sem eiga þar aðild.