137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

framtíðarskipan Hólaskóla.

9. mál
[14:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Út af því sem sagt var hér áðan vil ég vekja athygli á því að þegar tekin var um það ákvörðun að færa rekstur skólans undan landbúnaðarráðuneytinu í menntamálaráðuneytið var ákveðið að gera gangskör að því að leysa úr þeim mikla vanda sem skólinn hefur átt við að etja mjög lengi. Það var meðvituð ákvörðun um að gera það í tengslum við þennan flutning á milli ráðuneytanna. Þess vegna var þessi nefnd, sem ég vísaði til, sett á laggirnar og hv. þm. Guðbjartur Hannesson sat m.a. í henni. Þeirri nefnd var m.a. ætlað það hlutverk að taka á rekstrarerfiðleikum skólans og finna á þeim frambúðarlausn, bæði að leysa þann uppsafnaða vanda sem til staðar var og einnig að reyna að finna lausnir til framtíðar.

Það er rétt sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði hér áðan: Það er mjög vont fyrir skólann að vera í svona mikilli óvissu. Ég vil hvetja hæstv. menntamálaráðherra til þess að hraða þeirri vinnu sem nú stendur yfir.

Það liggja fyrir margvísleg gögn. Það er búið að rýna mjög mikið í rekstrarstöðu skólans og þau gögn liggja öll fyrir. Það þarf fyrst og fremst núna að fara að taka pólitískar ákvarðanir.

Sú nefnd sem ég vísaði til lagði til ákveðnar tillögur. Að hluta til, heyrist mér, eru menn að vinna eftir þeim en þó ekki að öllu leyti. Ég held að það skipti mjög miklu máli að reynt sé að komast að einhverri niðurstöðu svo að skólinn sé ekki í óvissu, t.d. varðandi spurningu um rekstrarformið, líka varðandi spurninguna um fjármögnunina, og það að aðgreina á milli reksturs skólans og Hólastaðar er auðvitað bara mál sem hægt er að vinda sér í algjörlega óháð rekstrarþætti skólans.

En ég vil fyrst og fremst hvetja hæstv. ráðherra til að taka á þessum málum þannig að afstaðan geti legið fyrir sem fyrst því að skólinn líður auðvitað fyrir þá óvissu sem yfir honum grúfir.