137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

framtíðarskipan Hólaskóla.

9. mál
[14:43]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmönnum sem hér hafa talað að þetta hefur tekið mjög langan tíma, alveg frá því að landbúnaðarháskólarnir voru færðir undir menntamálaráðuneytið 1. janúar 2008. Síðan er liðið tæplega eitt og hálft ár og enn eru skólarnir í raun og veru í gömlu fjármögnunarkerfi og ekki sambærilegir við aðra háskóla. En ég tel að það sé færi nú þegar þessi heildarendurskipulagning stendur fyrir dyrum. Ég held að það sé ekki annað hægt en að þetta verði hluti af henni, þ.e. að báðir landbúnaðarskólarnir taki þátt í henni.

Í raun og veru hefur menntamálaráðuneytið allt frá því það tók við málefnum Hólaskóla verið að vinna að því að koma rekstrinum þar í jafnvægi en það hefur því miður ekki enn tekist sem skyldi. Við vonum þó að það horfi til betri vegar og ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum það í ákveðnu samtali við fjármálaráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið sem einnig er fjármögnunaraðili að þessum landbúnaðarskólum.

Að lokum vil ég geta þess að mikil uppbygging hefur átt sér stað og miklar breytingar hafa orðið í báðum landbúnaðarskólunum á mjög skömmum tíma, allt frá því að skólarnir voru færðir upp á háskólastig og það breytist verulega starfsemin þar, þróast í nýjar áttir. Þannig að það má segja að á sama tíma og mikil uppbygging og mikill kraftur hefur verið hefur líka blásið út eitthvað sem ekki var fyrirséð. En ég tek undir það með hv. þingmönnum að það er mjög mikilvægt að rekstrarmálum verði komið á hreint og málefni Hólaskóla verði síðan skoðuð í samhengi.

Ég vil nýta tækifærið hér að lokum til að nefna það að ég heimsótti skólann og ræddi við starfsfólk þar núna í aprílmánuði. Ég tel að mikil áhugi sé á því að taka þátt í þessari heildarendurskipulagningu. Innan dyra á Hólum er mjög margt fólk sem hefur verið frumkvöðlar í samstarfi á háskólastiginu sem er nákvæmlega það sem við þurfum að horfa til núna í þessari skipulagningu þannig að þar munum við fá mjög mikilvæga krafta í þá vinnu sem er fram undan. Ég efast því ekki um það að þar á Hólaskóli eftir að spila stórt hlutverk.