137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

sumarnám í háskólum landsins.

24. mál
[15:01]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrirspurnina.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá háskólunum stunda 2.092 nemendur sumarnám við háskóla landsins og hafa sótt um það. Þingmaðurinn spyr hvort einhverjum hafi verið hafnað sem sótti um nám. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér hafa nær allir nemendur sem sóttu um inngöngu í sumarnám fengið aðgang að náminu. Það á þó ekki við um annars vegar Bifröst þar sem 280 nemendur sóttu um skólavist en 250 fengu inngöngu, líklega út frá rými skólans til að taka við nemendum, og hins vegar um Hólaskóla þar sem 15 umsóknir bárust um sumarskóla á hestafræðibraut en 9 stóðust inntökupróf. Að öðru leyti virðast umsækjendur hafa fengið inngöngu í það nám sem þeir sóttu um. Inni í þessum tölum eru ekki nemendur sem eru í rannsóknartengdu framhaldsnámi sem ekki taka námskeið en stunda eigi að síður nám. Nær helmingur þessara nemenda er í Háskóla Íslands eða u.þ.b. þúsund, ríflega 500 eru í Háskólanum í Reykjavík en síðan dreifist þetta milli þeirra skóla sem bjóða upp á sumarnám.

Eins og kunnugt er var ákveðið að veita 85 millj. til háskólanna til þess að þeir gætu í raun boðið upp á sumarnám enda hafði komið fram að ýmsir háskólar töldu sig hreinlega ekki hafa bolmagn til að gera það. Um leið var Lánasjóði íslenskra námsmanna veitt framlag upp á 660 millj. til þess að geta staðið undir útlánum og í raun og veru var það stóri útgjaldapósturinn til að geta staðið undir útgjöldum við sumarnám.

Hvað varðar reglur lánasjóðsins um sumarnám voru þær kynntar strax í upphafi og miðast við ákveðið lágmark sem er 20 ECTS-einingar eða 10 einingar í gamla kerfinu og eru þær sömu og hafa gilt um sumarnám almennt hjá lánasjóðnum. Þær reglur voru kynntar. Hins vegar er það rétt sem hv. þingmaður nefndi — mig grunar reyndar að sami tölvupóstur hafi borist mér — að nemendur geta lent þarna í millibili, milli Atvinnuleysistryggingasjóðs og lánasjóðsins. Ég tel mjög mikilvægt að þessi tvö kerfi ræði saman, þ.e. þær reglur sem annars vegar Atvinnuleysistryggingasjóður miðar við og hins vegar þær reglur sem lánasjóðurinn miðar við, að þar lendi ekki fólk milli skips og bryggju, ef svo má að orði komast, því að það hefur í raun verið þannig að þeir sem taka undir lágmarkinu hafa getað sótt um atvinnuleysisbætur en þau mörk virðast miðast við eitt námskeið. Hins vegar hafa reglurnar um sumarnám, þ.e. hvað dugi til að fá lán, verið algjörlega skýrar frá upphafi þess að ákveðið var að fara í það að LÍN byði upp á þessi lán, það var algjörlega ljóst að það mundi miðast við 20 ECTS-einingar.

Ég tek undir með hv. þingmanni að mér finnst mjög mikilvægt að þessi kerfi tali betur saman og hef ég þegar nefnt það við hæstv. félagsmálaráðherra að þörf sé á einhverri samræmingu í þessum efnum.